Langtímaáætlun í jarðgangagerð

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:43:11 (1066)

1999-11-03 14:43:11# 125. lþ. 18.5 fundur 61. mál: #A langtímaáætlun í jarðgangagerð# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. en umfjöllunin um hana undirstrikar auðvitað mikilvægi jarðganga í nútímasamgöngum.

Ég þekki umræðuna mjög vel varðandi utanverðan Eyjafjörð og þau jarðgöng sem fyrirhuguð eru til Siglufjarðar. Það er alveg ljóst að hér er um mikið hagsmunamál að ræða, ekki bara fyrir Siglufjörð heldur einnig fyrir önnur sveitarfélög við utanverðan Eyjafjörð og ég leyfi mér að segja fyrir Eyjafjörð allan.

Ég vænti þess reyndar að þó að ekkert verði af jarðgöngum þá fari menn ekki að breyta örnefnum en hitt er rétt að mikilvægið er ótvírætt. Í utanverðum Eyjafirði er rætt um sameiningu sveitarfélaga og í Eyjafirði er almenn samstaða um að þetta verkefni. Jarðgöng til Siglufjarðar eru talin slíkt forgangsverkefni og skipta áframhaldandi þróun svæðisins það miklu máli að um það hafa allir sveitarstjórnarmenn sammælst. Það skiptir máli, herra forseti.