Rekstur ferju í Ísafjarðardjúpi

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:20:22 (1082)

1999-11-03 15:20:22# 125. lþ. 18.7 fundur 74. mál: #A rekstur ferju í Ísafjarðardjúpi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hann sé reiðubúinn til að eiga viðræður um þá lausn sem ég hef orðað í fsp. minni. Ég mun fara þess á leit við þingmenn Vestfjarða að þeir óski eftir fundi með ráðherranum hið allra fyrsta. Við skulum gera okkur grein fyrir því að við erum að bera saman mjög ólíka hluti. Það hefur fallið á ríkissjóð að greiða ekki bara rekstrarstyrki við rekstur, t.d. Akraborgar og Herjólfs, heldur að greiða afborganir og vexti af lánum líka, af stofnkostnaði. Þessar samanlögðu greiðslur ríkissjóðs, bæði rekstrarstyrkir til þessara ferja og afborganir og vextir af lánum, eru margföld sú fjárhæð sem ríkissjóður hefur þurft að leggja af hendi til þess að tryggja öryggi í samgöngum í Djúpi með djúpbátnum Fagranesi. Kaupverð skipsins var ekki nema lítið brot af því sem kostaði að byggja Baldur eða innan 1/10 af þeim kostnaði. Samt sem áður er það burðarmeira skip en Baldur, hraðgengara, eyðir minna eldsneyti og ber fleiri bíla. Það er því ekki nema brot af þeim kostnaði sem hér um ræðir.

Raunar er kostnaðurinn svo lítill að ég er sannfærður um að ef þeir skilmálar væru settir að þungaflutningar sem fara um Ísafjarðardjúpið haust og vor yrðu ekki líkt og í dag heldur yrðu að flytjast með skipinu þá mundi Vegagerðin spara álíka mikið í vegaviðhaldi og það sem hún þyrfti að greiða í styrki. Eins og kunnugt er þá veldur einn svona þungaflutningabíll með farangursvagn aftan í álíka miklu vegatjóni í einni ferð og tíu þúsund fólksbílar. Mín skoðun er að hægt væri að halda hinum veikburða malarvegum við Djúp fólksbílafærum allt árið ef þessir þungaflutningar ættu sér ekki þar stað.

En ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra og mun eins og ég segi beita mér fyrir því að þingmenn Vestfirðinga óski eftir fundi með honum um málið hið allra fyrsta.