Verkefni sem sinna má á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:32:57 (1086)

1999-11-03 15:32:57# 125. lþ. 18.8 fundur 51. mál: #A verkefni sem sinna má á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Um leið og ég þakka fyrir þessa fyrirspurn vil ég aðeins leggja orð í belg. Það er rétt sem fram hefur komið að þetta eru miklar og góðar tillögur sem lagðar eru fram um að flytja störf út á land og nýta sér fjarskiptabúnað í þessum efnum. Mig langar að geta aðeins um málefni sem er ekkert mjög gamalt, þ.e. að Póstur og sími sem þá hét svo, eða Landssíminn eða hvað hann nú hét á þeim tíma, hefur verið að beita sér fyrir að loka loftskeytastöðvum út um allt land. Það er sama hvort það er á Ísafirði, Neskaupstað eða Siglufirði. Þar er verið að loka stöðvum, t.d. á Siglufirði þar sem vinna sex til átta manns og um 30 manns eru bak við þau störf af íbúum bæjarins, sem eru um 1.700 talsins. Og verið er að flytja þau störf öll suður á land og þau flutt í Gufunes vegna þess að tækninni hefur fleygt svo fram að hægt er að vinna þau í Reykjavík. Maður spyr: Hefur ekki tækninni fleygt fram í báðar áttir? Þarna virðist manni einhvern veginn að vinstri hönd hæstv. ríkisstjórnar viti ekki hvað sú hægri er að gera í málefnum landsbyggðarinnar.