Verkefni sem sinna má á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:40:06 (1091)

1999-11-03 15:40:06# 125. lþ. 18.8 fundur 51. mál: #A verkefni sem sinna má á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda ágætis ábendingar og tek undir það með hv. þm. Kristjáni L. Möller að því miður hefur leiðin legið suður. Á því leikur enginn vafi. Allar tölur sýna það. En leiðin þarf að liggja í báðar áttir og að því eiga menn auðvitað að keppa. Þar skiptir hugarfarsbreytingin alveg gríðarlega miklu máli og ég tel að hún sé að verða til staðar. Ég skal taka dæmi. Árið 1995 byrjaði ég sem iðnrh. og spurði í barnaskap mínum hvort ekki væri möguleiki að byggja álver t.d. á Austurlandi því Reyðarfjörður hafði verið í nokkurn tíma þar til umræðu. Allir sem að málinu höfðu komið töldu að það kæmi ekki til greina, eini staðurinn fyrir það væri á Keilisnesi og það var vegna þess að Alþýðuflokkurinn hafði lagt svo mikla áherslu á uppbyggingu álvera og Samfylkingin nú á Keilisnesi. Algjörlega breytt hugarfar. Það kemur ekki til greina í dag að byggja slíkt stóriðjuver á suðvesturhorni landsins. Það verður staðsett sem næst orkulindunum.

Þetta er gott dæmi um algjöra hugarfarsbreytingu í þeim efnum og ekkert eitt stórt verkefni eins og fyrirhuguð bygging Fljótsdalsvirkjunar eða uppbygging orkufreks iðnaðar á Austurlandi getur valdið öðrum eins straumhvörfum fyrir landsbyggðina og slíkt verkefni. Þess vegna fagna ég því alveg sérstaklega nú við þessa umræðu hversu góðar undirtektir byggðamálin, atvinnuþróunin á landsbyggðinni, hefur fengið af hálfu stjórnarandstöðunnar og vænti ég því víðtæks stuðning við þau verkefni og þá þáltill. sem hér kemur fram um það atriði innan fárra daga.