Lækkun húshitunarkostnaðar

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:44:04 (1092)

1999-11-03 15:44:04# 125. lþ. 18.9 fundur 78. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. iðnrh. um lækkun húshitunarkostnaðar sem blandast inn í umræðu um byggðamál eða þann þjóðarvanda og byggðamál sem hann er að taka við um áramót. Ég vitna í könnun Stefáns Ólafssonar lektors sem gerð var fyrir Byggðastofnun í janúar 1998 þar sem spurt er um viðhorf íbúa til búsetuskilyrða á landsbyggðinni. Þar kemur fram að þeir sem óánægðastir eru, eða 78% talsins, nefna húshitunarkostnað.

Hitun íbúðarhúsnæðis er talin kosta um 4,5 milljarða á ári á Íslandi. Henni má skipta í þrjá flokka. 176.000 íbúar, eða 66% landsmanna, búa á svæði ódýrra hitaveitna sem eru langflestar á höfuðborgarsvæðinu og borga að meðaltali 48.000 kr. á ári. 27.000 íbúar, eða 10% íbúa landsins, búa á svæði meðaldýrra hitaveitna og borga um 61.000 kr. að meðaltali. 64.000 íbúar, eða 24% íbúa landsins, búa á svæði dýrra orkuveitna og borga um 100.000 kr. að meðaltali, en þekktar tölur eru í kringum 130.000--180.000 kr. á ári. Þessar dýru orkuveitur eru bundnar við dreifbýlið allt um landið og þéttbýlisstaði þar sem ekki er jarðhitaveita ásamt nokkrum jarðhitaveitum sem eru með þetta dýra orkuverð.

Ef neytendur hjá dýrum orkuveitum greiddu meðalverð, þ.e. færu úr dýra flokknum niður í meðalverð, þá mundi hitareikningur þeirra lækka um tæpar 700 millj. kr. á ári, þar af eru um 400 millj. kr. hjá rafveitum og kyntum hitaveitum og um 300 millj. kr. hjá hitaveitum. Lækkun húshitunarkostnaðar úr dýra flokknum niður í meðaldýra flokkinn er byggðastefna sem bragð er að.

[15:45]

Ég vitna til byggðanefndar hæstv. forsrh. sem var þverpólitísk nefnd sem gerði það að fyrstu tillögu sinni og lagði á það höfuðáherslu að niðurgreiðslur til húshitunar yrðu auknar. Þar var talað um að það ætti að gerast í þremur jöfnum áföngum á þremur næstu árum, jöfnum aðgerðum.

Við höfum heyrt álit hæstv. forsrh. úr þessum stól þar sem hann hefur allt að því lofað að þetta verði tekið inn. En engu að síður sér þess ekki stað í fjárlagafrv. sem lagt hefur verið fram. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnrh. um eftirfarandi sem er á þskj. 78:

,,Hvernig verður staðið við þau fyrirheit um lækkun húshitunarkostnaðar sem fram komu í tillögu svokallaðrar byggðanefndar forsætisráðherra og allir þingflokkar stóðu að á 123. löggjafarþingi 1998--1999?``

Þetta var sú fyrirspurn sem ég vildi leggja fyrir hæstv. iðnrh.