Lækkun húshitunarkostnaðar

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:54:41 (1096)

1999-11-03 15:54:41# 125. lþ. 18.9 fundur 78. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að koma fram með þessa fsp. Við komum enn og aftur að áformunum og efndunum. Það liggur alveg ljóst fyrir að tillögur byggðanefndar voru um fjárupphæðir sem voru langt umfram það sem við erum að tala um hér til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Hvert skref ber þó að þakka, það er ekki það. En myndarlegar hefði þurft að taka á málum. Það er ljóst samkvæmt tillögunum eins og ég skil þær.

Ég vil aðeins benda á eitt. 90 millj. til að koma upp hitaveitum á köldum svæðum er bara alls ekki nóg. Það dugar aðeins fyrir hitaveitu í Stykkishólmi. Önnur svæði hafa farið af stað með hitaveitur í góðri trú og það sparar okkur mest. Það er trú mín og von, hæstv. iðnrh., að þeir sem nýverið hafa byggt upp hitaveitur, sem er náttúrlega langbesti kosturinn fyrir okkur, verði ekki skildir eftir. Sum svæðin eru þannig sett að þau áforma að ef staðið verði við framlög til þeirra eins og þeir voru í góðri trú með bara fyrir örfáum mánuðum, þá muni jafnvel eiga sér stað uppbygging á hitaveitu í sveitum, sem er mjög stórt mál.