Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 16:04:52 (1101)

1999-11-03 16:04:52# 125. lþ. 18.10 fundur 49. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[16:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn er efnislega sú sama og beint var til hæstv. iðnrh. fyrr á þessum fundi. Ég vil leyfa mér að vísa til þeirra svara sem hann gaf um þetta mál. Hér er að sjálfsögðu um að ræða samstarfsverkefni ríkisstjórnarinnar allrar ef svo mætti segja og eðlilegast að menn hafi samfylgd í þessum efnum þar sem því verður við komið.

Það hefur verið útbúin ítarleg skýrsla um nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni og hefur hún orðið að umtalsefni hér. Fyrir liggur að nú þarf að vinna frekar úr þessu efni og kanna í hverju ráðuneyti og ríkisstofnun fyrir sig hvað er þarna af nýtilegum tillögum. Vissulega mun það gert á vettvangi fjmrn. eins og annarra stofnana.

Hv. þm. spyr í fsp. sinni um hvort viðkomandi verkefni hafi verið skilgreind, sbr. 6. lið þáltill. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001. Svarið við því er nei, því er ekki lokið og þar af leiðandi liggur ekki fyrir hvenær tillögur fjmrn. að því er varðar möguleika upplýsingatækninnar verði lagðar fram. Hins vegar er þetta ekkert sérmál fjmrn. heldur málefni sem kallar á samræmda stefnu. Hún hefur verið undirbúin. Tillögurnar liggja hér fyrir, ábendingarnar og hugmyndirnar og næsta skref er að sjálfsögðu að vinna úr þeim.