Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 16:08:09 (1103)

1999-11-03 16:08:09# 125. lþ. 18.10 fundur 49. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þetta eru auðvitað mjög mikilvægar umræður sem hér hafa hafist um byggðamálin. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á tvennu. Í fyrsta lagi því sem hefur gerst á þessu hausti, að Landssíminn áformar að lækka mjög verulega gjöld af notkun á leigulínum og slíku sem ætti auðvitað að auðvelda þennan verkefnatilflutning frá höfuðborgarsvæðinu og út á land.

Síðan bendi ég á hitt, sem líka er mjög mikilvægt og hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra, að fyrir liggur skýrsla unnin að frumkvæði stjórnvalda, af Byggðastofnun og Iðntæknistofnun sem er samantekt á þeim hugmyndum sem liggja fyrir um hvaða verkefni megi flytja út á land. Við getum því sagt að búið sé að vinna þennan grunn.

Ég vil enn fremur minna á að í tillögu byggðanefndar forsrh., sem hér hefur komið til umræðu í dag, er mjög skýrt sett fram hvernig vinna skuli að því að færa þessi verkefni út á land, m.a. að sett skuli fram áætlun í upphafi kjörtímabilsins og sú áætlun síðan rædd á þinginu tveimur árum síðar. (Forseti hringir.) Ég held að búið sé að setja þetta mál í farveg sem ætti að leiða til þess að við sjáum verulegar breytingar á þessu sviði á næstunni.