Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 10:33:10 (1109)

1999-11-04 10:33:10# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[10:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1999 sem er að finna á þskj. 128 og er 117. mál þingsins.

Í frv. er áætlað að tekjur ríkissjóðs hækki um tæplega 10 milljarða kr. frá því sem ráðgert var í fjárlögum ársins og sótt er um tæplega 5,5 milljarða viðbótarfjárheimildir vegna meiri útgjalda en fyrirséð voru við afgreiðslu fjárlaga. Frv. ber merki um þá miklu sókn sem er í íslensku efnahagslífi og skilað hefur auknum tekjum til ríkisins.

Samhliða örum efnahagsvexti hafa komið fram kostnaðarhækkanir í ýmsum geirum ríkisrekstursins, þar á meðal í heilbrigðis- og menntamálum sem bregðast þarf við með þessu frv. og þá í mörgum tilvikum með auknum framlögum frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Mestu skiptir þó að markmiðum með fjárlögum ársins 1999 um afgang á ríkissjóði og ríflegan lánsfjárafgang er fylgt rækilega eftir með þessu frv.

Hækkun tekna frá áætlun má fyrst og fremst rekja til meiri fjárfestingar og útflutnings en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Þá hafa ráðstöfunartekjur hækkað heldur meira en tekjuáætlun ársins byggðist á. Þannig er áætlað að landsframleiðslan verði tæplega 1% meiri en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga í desembermánuði sl. Loks sýnir niðurstaða ríkisreiknings 1998, sem var nýlega lagður fram, hærri tekjur en byggt var á þegar tekjuáætlun þessa árs var unnin síðla á síðasta ári. Að öllu samanlögðu eru tekjurnar nú áætlaðar um 10 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum ársins. Mest hækka tekjur vegna skatta og tekjur á hagnað eða um 4,5 milljarða kr. Þar af skila tekjuskattar einstaklinga 3,4 milljörðum kr. meiri tekjum en áður var gert ráð fyrir og fjármagnstekjuskatturinn er 1,4 milljörðum umfram áætlun. Hækkun tekjuskatts á einstaklinga stafar m.a. af minna atvinnuleysi og hærri launatekjum en áætlað var og aukin velta á fjármagnsmarkaði skilar ríkissjóði einnig auknum tekjum.

Skattar á vöru og þjónustu eru 3,8 milljörðum kr. umfram áætlun. Þar af eru vörugjöld 1,9 milljörðum kr. hærri og virðisaukaskattur er tæplega milljarði kr. yfir áætlun. Innflutningur á vörum sem bera tiltölulega há vörugjöld hefur vaxið nokkuð umfram forsendur fjárlaga. Þannig er innflutningur bifreiða meiri en gert var ráð fyrir og skilar það sér í auknum ríkissjóðstekjum. Aðrar tekjubreytingar eru minni og skýrast einkum af auknum vaxtatekjum og tekjum af neyslu- og leyfisgjöldum.

Í frv. er sótt um tæplega 5,5 milljarða kr. viðbótarfjárheimildir til að mæta auknum útgjöldum. Þar af eru framlög til launa- og rekstrargjalda um 3,2 milljarðar, neyslu- og rekstrartilfærslu tæplega 1 milljarður og viðhald á stofnkostnaði er 1,2 milljarðar kr. Vakin er athygli á því að munur er á áætlun um útgjöld á yfirstandandi ári og því sem sótt er um í viðbótarfjárheimildir.

Eins og ég nefndi eru heimildirnar í frv. alls um 5,5 milljarðar kr. en endurskoðuð áætlun um útkomu þessa árs bendir til þess að frávikið verði 4,9 milljarðar. Mismunurinn skýrist að stórum hluta á útgjöldum umfram fjárlög sem voru reikningsfærð á síðasta ári og flutt til þessa árs en sem nú er lagt til að verði gerð upp með auknum framlögum. Þannig er nú sótt um fjárheimildir til að greiða rekstrarhalla nokkurra stofnana frá árinu 1998 sem þegar hafa verið færð í reikning þess árs.

Auk þess getur það valdið nokkrum mismun milli fjárheimilda og bókfærðra gjalda í hversu miklum mæli heimildir frá fyrri árum eru nýttar og hversu mikið af afgangsheimildum og umframgjöldum færast til næsta árs. Þetta er skýringin á því að gert er ráð fyrir 5,5 milljarða kr. viðbótarfjárheimildum þó svo umframútgjöld þessa árs séu ekki áætluð nema 4,9--5 milljarðar.

Vert er að vekja sérstaka athygli á því að varasamt er að reikna hlutfallsleg frávik á fjárheimildum einstakra ráðuneyta. Bæði hafa fjárheimildir verið fluttar á milli ráðuneyta og síðan hafa komið til ýmis stór verkefni sem raska heildarmyndinni. Má þar nefna t.d. framlög í þróunarsjóð EFTA, átak ríkisstjórnarinnar í vegamálum og fleiri slík atriði sem segja lítið til um hvernig rekstri stofnana viðkomandi ráðuneytis er háttað. Þannig má nefna að fluttar eru 250 millj. kr. af launa- og verðlagslið fjmrn. yfir á menntmrn. þar sem lokið var við að meta áhrif kjaranefndarúrskurða á árinu, m.a. vegna háskólaprófessora. Einnig má nefna tilfærslu embættis eins og ríkislögmanns sem flutt er frá fjmrn. til forsrn. Sú tilfærsla hefur í för með sér lækkun á fjárheimildum fjmrn. en hækkun á fjárheimildum forsrn. að sama skapi.

Endurskoðuð áætlun um tekjur og gjöld samkvæmt frv. sýnir að tekjuafgangur hækkar um 5 milljarða kr. frá fjárlögum 1999 og verður 7,5 milljarðar. Hreinn lánsfjárjöfnuður eykst um tæplega 3,9 milljarða og verður ríflega 20 milljarðar kr. en það er sú stærð, eins og kunnugt er, sem er til ráðstöfunar annaðhvort til þess að greiða upp skuldir eða til að styrkja stöðu ríkissjóðs með öðrum hætti.

Tvennt getur einkum breytt þessari mynd auk almennrar endurskoðunar á tekjum og útgjöldum í meðförum þingsins. Í fyrsta lagi er sölu á 51% hlut ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að ljúka og verður söluhagnaður væntanlega um 3 milljörðum kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum og í því frv. sem hér er til umræðu. Hækkar þá tekjuafgangur ríkissjóðs og lánsfjárafgangur sem því nemur og þarf að huga að því sérstaklega áður en frv. er afgreitt frá Alþingi að taka þá niðurstöðu með í hinn endanlega reikning. Það er þó að sjálfsögðu ekki tímabært fyrr en málið er frágengið.

Í öðru lagi eru útgjöld stofnana sem falla undir heilbrrn. nú til sérstakrar skoðunar og er vert að víkja nánar sérstaklega að því. Heilbrigðisútgjöld hafa verið í sífelldri umræðu við gerð fjárlaga og fjáraukalaga. Árið 1998 skipaði hæstv. heilbrrh. sérstakan vinnuhóp, svokallaðan faghóp í þeim tilgangi að gera tillögur um rekstur heilbrigðisstofnana, sjúkrahúsa og skilgreina hlutverk stofnana. Hópurinn lauk störfum síðla árs 1998 og eru fjárlög yfirstandandi árs byggð á tillögum hans. Farið var yfir rekstur hverrar stofnunar og hlutverk skilgreint auk þess að gerðar voru tillögur um hagræðingu, svo sem rekstur fimm daga deilda þar sem slíkt var talið henta. Gerð voru drög að þjónustusamningi við hverja stofnun að frátöldum stóru sjúkrahúsunum þar sem verksvið þeirra var nánar skilgreint. Allt var þetta starf unnið í nánu samráði við stjórnendur stofnananna.

Að tillögu hópsins var óskiptum fjárveitingum, sem Alþingi hafði veitt í þeim tilgangi, deilt á þessar stofnanir og framlög aukin umtalsvert í fjáraukalögum fyrir árið 1998 og í fjárlögum þessa árs.

Snemma á þessu ári var hins vegar ljóst að útgjöld viðkomandi stofnana sem og ýmissa annarra stofnana er heyra undir heilbrigðismál voru meiri á árinu 1998 og árið 1999 en forsendur vinnuhópsins byggðu á. Eru þar m.a. nefndar til sögunnar meiri launahækkanir en ráðgert var hjá þessum stofnunum og sem launabætur fjárlaganna miðuðust við. Enn þá er mjög brýnt að komast fyrir rekstrarvanda þessara stofnana og þann vanda sem þar er við að glíma. Hafa ráðuneyti fjármála og heilbrigðismála sameiginlega falið Ríkisendurskoðun að kanna rekstrarstöðu þessara stofnana og í kjölfar þeirrar niðurstöðu sem nú er unnið að í góðu samráði þessara aðila allra er að vænta tillagna frá ráðuneytunum um frekari aðgerðir ef þörf krefur þegar niðurstaðan liggur fyrir.

Mikilvægt er að hafa í huga að vandi einstakra stofnana er mismunandi umfangsmikill og gæta verður samræmis á milli stofnana við lausn hans þannig að ekki verði grafið undan þeim rammafjárlögum og ákvörðunum Alþingis um fjárframlög til verkefna og stofnana. Mikilvægt er að hlutlægir mælikvarðar ráði við lausn vandans og stjórnendur stofnana beri þá ábyrgð á rekstrinum sem ætlast verður til. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að ég vænti þess að meðan frv. er í höndum Alþingis muni fjárln. vinna ásamt ráðuneytunum að lausn þessa máls og fylgja því eftir í kjölfarið að farið verði að ákvörðunum þingsins og að fjárlög standi. Mikilvægt er að áætlun fjárlaga sé traust og eftir henni sé farið við að takast á við stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum.

Ég vil að lokum nefna að í frv. er farið fram á talsverða hækkun á heimildum Íbúðalánasjóðs til útgáfu húsbréfa og húsnæðisbréfa. Mikil aukning hefur verið í útlánum sjóðsins á árinu og eru samþykkt lán til notaðra íbúða 45% fleiri en á sama tíma í fyrra. Því þykir nauðsynlegt að afla 7,4 milljarða kr. viðbótarheimilda til handa húsbréfadeild til að ekki verði röskun á fasteignamarkaði eða óþarfa bið eftir afgreiðslu lána.

Einnig er sótt um auknar heimildir til útlána til leiguíbúða og til viðbótarlána á ábyrgð sveitarfélaga. Er þar samtals um að ræða 1,5 milljarða kr. og er það vegna þess að umsóknir hafa verið fleiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Herra forseti. Ég hef nú farið nokkrum almennum orðum um frv. og þau áhrif sem það hefur til þess að auka rekstrar- og lánsfjárafgang ríkissjóðs. Ég sé ekki ástæðu til að tíunda sérstaklega einstaka liði í frv. umfram það sem gert hefur verið og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln. þingsins.