Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 11:25:12 (1116)

1999-11-04 11:25:12# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JónK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[11:25]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Breytingar á tekjuhlið þess fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir sýna kraft í íslensku efnahagslífi. Þær sýna það fyrst og fremst að hér á landi hefur verið full atvinna og launatekjur hafa m.a. vaxið af þeim sökum. En eins og hefur komið fram hér áður þá er drjúgur hluti af þeirri tekjuaukningu fram yfir áætlun sem frv. sýnir vegna tekjuskatts á laun og hagnað fyrirtækja.

Fleiri atriði þessa fjáraukalagafrv. sýna þessa jákvæðu þætti í efnhagslífinu, þar á meðal lækkuð framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna betra atvinnustigs í landinu og vaxtagjöld lækka frá því sem áður var áætlað. Fjáraukalagafrv. gerir ráð fyrir því að tekjuafgangur ríkissjóðs aukist og eins og fram hefur komið þá mun koma til aukinn hagnaður af sölu Fjárfestingarbankans sem á eftir að taka afstöðu til.

Hins vegar er rétt að hluti af þeim 10 milljarða kr. tekjuauka sem frv. gerir ráð fyrir er vegna mikils innflutnings og tekna af umsvifum í þjóðfélaginu sem af honum stafa. Ég held að það sé nauðsynlegt af efnahagslegum ástæðum að leggja þessar tekjur fyrir, setja þær ekki út aftur í efnahagslífið í aukna eyðslu og þenslu, að tekjuafgangur ríkissjóðs verði að aukast sem þessu nemur til að þessar tekjur nýtist í framtíðinni þegar verr árar, að staða ríkissjóðs verði þá betri. Við verðum að hugsa til fleiri ára, hugsa til lengri tíma í ríkisfjármálum og við verðum að reikna með því að sveiflur verði þó að það sé auðvitað æskilegast að áframhaldandi kraftur verði í atvinnulífinu og ríkissjóður hafi góða afkomu af þeim sökum.

Gert er ráð fyrir að af þessum 10 milljarða kr. tekjuauka aukist útgjöld um liðlega 5 milljarða kr. Það sem er kannski fyrst og fremst til umræðu hér er nákvæmni fjárlaga á hverjum tíma. Fjárlög eru rammi utan um efnahagsstarfsemina sem ríkissjóður kemur nálægt. Þau eru rammi utan um útgjöld ríkisstofnana og það er auðvitað æskilegast, og það ber að taka fjárlögin þannig, að þau séu sá rammi sem ríkisstofnanir eiga að starfa eftir. Það verður að vera grundvallareglan. Auðvitað er aldrei hægt að komast hjá því að nokkur frávik verði í áætlunum, en hins vegar legg ég mikla áherslu á að ákvarðanir fjárlaga hverju sinni eiga að setja stofnunum ríkissjóðs ramma um starfsemi sína.

[11:30]

Í þessu fjáraukalagafrv. skiptist útgjaldaaukinn á ýmsa málaflokka. Sumt af honum má rekja til ákvarðana sem voru teknar af ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum fyrr á árinu og er verið að sækja um fjármagn til staðfestingar á þeim ákvörðunum. Þannig háttar t.d. um þær ákvarðanir að setja meira fjármagn til lífeyristrygginga, til sjúkratrygginga og hér er t.d. verið að staðfesta flýtingu á vegáætlun sem var ákveðin fyrr á árinu upp á 500 millj. kr. Hluti af útgjaldaaukanum er af þessum orsökum.

Hér hafar komið til umræðu áður heimildir framkvæmdarvaldsins til þess að ákveða slík útgjöld. Ég tek undir það að auðvitað starfar ríkisstjórnin á ábyrgð stjórnarmeirihlutans. Hins vegar er nauðsynlegt að upplýsingaflæði frá ríkisstjórninni um slíkar ákvarðanir til Alþingis sé sem greiðast þannig Alþingi fái vitneskju um slíkar ákvarðanir eins fljótt og verða má. En ég tek undir orð hæstv. fjmrh. að því leyti að vissulega starfar ríkisstjórnin á ábyrgð þingmeirihluta.

Sá hluti fjáraukalagafrv. sem mestum umræðum veldur varðar hins vegar þær stofnanir sem starfa á vegum ríkissjóðs eða með fjármagni frá ríkissjóði en fara fram úr áætlun fjárlaga. Í fjáraukalagafrv. skera tvö ráðuneyti sig úr að þessu leyti af eðlilegum ástæðum því að langflestar stofnanir starfa á þeirra ábyrgð. Það er í fyrsta lagi menntmrn. og í öðru lagi stofnanir undir heilbrrn.

Menntmrn. fer fram úr um 900 millj. kr. Það er af tveimur ástæðum. Það er vegna samninga við Háskóla Íslands og það er vegna þess að áætlanir um fjárframlög til framhaldsskólanna hafa ekki staðist. Það er nauðsynlegt fyrir fjárlaganefndarmenn að fara yfir þessi atriði. Fjárframlög til framhaldsskólanna eru byggð á skólasamningum og það er nauðsynlegt að grennslast fyrir um hve haldgóðir þeir eru því að æskilegast væri að komast sem næst raunverulegum útgjöldum með þeim samningum. Það hefur verið unnið mikið verk á því sviði í menntmrn. En það er nauðsynlegt að yfirfara þá samninga á hverjum tíma þannig að þeir séu sem næst hinum raunverulegu útgjöldum eða þá að kanna hvað er í veginum, þ.e. hvers vegna stofnanir hafa farið fram úr þessum samningum.

Í öðru lagi eru 1.400 millj. í fjáraukalagafrv. lagðar til þess að bæta hallarekstur heilbrigðisstofnana, einkum sjúkrahúsa. Það eru auðvitað verulega fjárhæðir en þess ber að geta að þó að heilbrrn. sé mjög stórt ráðuneyti að umfangi og fari með mjög stóran hluta af ríkisfjármálunum, þá eru þarna mál sem hafa verið viðfangsefni fjárln. um árabil. Ég heyri á ræðum sem hér hafa verið fluttar, einkum hjá hv. 5. þm. Vesturl., að hann hefur séð ljósið í þessum efnum og séð þessa hluti fyrir. Ég gat ekki betur heyrt á ræðu hans en að úrræðin sem bent er á í þessu efni væru einfaldlega að borga það sem út af stendur og taka allar áætlanir inn í áætlun fjáraukalaga og áætlun fjárlaga.

Það sem ég hef um þetta að segja er að ég vitna til þess sem hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni að Ríkisendurskoðun hefði verið beðin að fara yfir þessi mál og leggja mat á áætlanir sjúkrahúsanna þannig að við í fjárln. munum fá þá úttekt inn á okkar borð. Ég legg áherslu á að það verði að koma þeirri skipan á til frambúðar að sjúkrahúsin geti verið innan ramma fjárlaga. Ef það á að bæta til fulls fjárvöntun þeirra þá verður að vera tryggt að búið sé að vinna bug á því vandamáli, skilgreina hlutverk sjúkrahúsanna þannig að þau geti verið innan ramma fjárlaga hverju sinni og hægt sé að ákveða þeim sanngjarnan ramma miðað við þeirra starfsemi. Þetta er verkefni sem er því miður ekki lokið og það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það. En það er eigi að síður ástæða til þess að vinna þrotlaust að þessu. Stofnanir menntmrn. og stofnanir heilbrrn. eru í raun af sama meiði að þessu leyti. Verkefnið er að finna þeim fjárlagaramma í samræmi við hlutverk þeirra og síðan verði staðið við þann ramma. Það er nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt þannig að jafnræði ríki og að það gerist ekki að sumir fari fram úr en aðrir fari ekki fram úr. Af því hlýst eilífur samanburður og leiðindi. Nauðsynlegt er að finna hæfilegan ramma fyrir þessar stofnanir. En ég undirstrika að það verður að koma fjárlögum þannig fyrir að hægt sé að standa á því að þetta sé sá rammi sem ber að fara eftir og það ber að fara eftir fjárlögum.

Ýmis fleiri útgjaldatilefni eru í þessu fjáraukalagafrv. sem fjárln. mun að sjálfsögðu fara yfir. Nokkur atriði ber þar nokkuð hátt. Það eru svokölluð einsskiptisútgjöld sem koma til m.a. af hátíðahöldum árið 2000. Það er mjög stór útgjaldaliður í fjárlögum árið 1999, fjáraukalögum 1999 og fjárlögum fyrir árið 2000. Þarna eru veittir mjög miklir fjármunir í þessi verkefni og það byggist auðvitað á ákvörðunum um að halda veglega upp á aldamótaárið og kosta til kristnihátíðarinnar sem þá verður.

Fleiri einsskiptisútgjöld koma til á aldamótaárinu og það kemur fram í fjárlögum, fjáraukalögum og fjárlögum fyrir árið 2000 en það er hinn svokallaði 2000-vandi. Það kostar gífurlega fjármuni að eiga við hann, ekki síst á heilbrigðisstofnunum. Einhvern tíma fengum við upplýsingar um það í fjárln. að á Ríkisspítölunum einum væru þúsund tölvuskjáir og mjög miklir fjármunir fara til þess að tryggja að engar truflanir verði á starfsemi spítalanna t.d. vegna hins svokallaða 2000-vanda.

Hér hefur hv. 5. þm. Vesturl. talað af hálfu stjórnarandstöðunnar um vanáætlaðar tekjur og að bent hafi verið á það í mörg ár að tekjur hafi verið vanáætlaðar. Það er orðinn fastur liður hjá hv. 5. þm. Vesturl. í þessum ræðustól að greina frá því og greina frá kenningum sínum í þeim efnum við afgreiðslu fjárlaga. (SJS: Hafa þær ekki staðist?) Um það vil ég segja að það er miklu betra að mínu mati að standa frammi fyrir því að tekjur hafi farið fram úr áætlun en að gjöld hafi farið fram úr áætlun. (Gripið fram í.) En það er nauðsynlegt þegar svo háttar að dæla ekki öllum þeim tekjum út í efnahagslífið heldur nota þær til þess að laga stöðu ríkissjóðs til frambúðar. Það vil ég undirstrika. Ég vil undirstrika það sérstaklega að ganga hægt um gleðinnar dyr. Það er nauðsynlegt bæði í sambandi við fjárlagagerð og í sambandi við fjáraukalögin að það verður að vanda sérstaklega vel til útgjalda því að við getum ekki vænst þess að ætíð verði uppsveifla í þjóðfélagi okkar þó að við viljum vissulega reyna að koma okkar efnahags- og atvinnumálum þannig fyrir að við séum ekki eins háðir sveiflum og verið hefur, því miður. Því miður hefur efnahagslíf undanfarinna ára einkennst af uppsveiflum og niðursveiflum og ég er ekki svo bjartsýnn að ég geti vonað það að þetta sé eingöngu liðin tíð. Vonandi er það svo, en hins vegar er ekkert vit í öðru en reyna, þegar árar eins og nú, að greiða niður skuldir ríkissjóðs og það er líka efnahagsleg nauðsyn. Það er aðferð til þess að draga úr þenslu og hamla gegn verðbólgu og það þurfum við við þessar aðstæður.

Við höfum fjallað nokkuð um launamál í fjárln. og munum gera það áfram. Tímans vegna mun ég ekki fara í þau mál nú við 1. umr. Eins og sést á fjáraukalagafrv. eru aukin útgjöld að verulegu leyti vegna launahækkana en það mál munum við fjalla um þegar við tökum þetta fjáraukalagafrv. til umræðu í fjárln., en þangað mun það fara. Við erum þegar búin að líta á það en við munum vinna það í framhaldinu, m.a. í tengslum við frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 sem við erum einnig með í vinnslu.