Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 11:47:20 (1118)

1999-11-04 11:47:20# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[11:47]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. og ég gat um í ræðu minni hefur Ríkisendurskoðun verið falið að fara yfir rekstrartölur sjúkrahúsanna. Án þess að ég tali um einstök sjúkrahús í þessu sambandi þá er það svo að áætlanir þeirra hafa verið að breytast eftir því sem liðið hefur á árið. Þó að vissulega væri ljóst að fjárvöntun væri við síðustu fjárlagagerð miðað við áætlanir þeirra þá hefur þetta verið að breytast og þar var ekki allt séð fyrir.

Ég endurtek að það er nauðsynlegt að koma málum þannig fyrir að sjúkrahúsunum sé settur sá rammi sem þau eiga að vera innan. Ríkisstjórnarmeirihlutinn vill vinna að því að koma þeirri reglu á að losna við endalausu umfjöllun um sjúkrahúsin og hallarekstur þeirra. Til þess verður að skilgreina hlutverk þeirra og ákveða þeim fjárlagaramma sem hægt er að standa við.