Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:05:34 (1131)

1999-11-04 14:05:34# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það eru alltaf lögð fram óraunsæ fjárlög, sagði þingmaðurinn og það er skrýtið í ljósi stefnu ríkisstjórnarinnar. Menn velta því fyrir sér hvort hér liggi fiskur undir steini. Þetta er auðvitað fráleit tilgáta og það mætti þá með sama hætti spyrja hvernig standi á því að tekjuáætlun stenst ekki upp á punkt og prik í hvert skipti. Hvaða pólitíska skýring skyldi vera á því að sumir tekjustofnar eru yfir og aðrir undir á hverju ári? Ég er hræddur um að slík pólitísk skýring sé vandfundin.

Að því er varðar einkavæðingu og einkaframtak þá er það rétt að það er stefna ríkisstjórnarinnar að reyna að flytja sem mest af verkefnum út á einkamarkaðinn sem þangað er hægt að koma með góðu móti, en að sjálfsögðu gegn því og að því skilyrði uppfylltu að þjónustan sé veitt a.m.k. jafngóð, helst betri og a.m.k. ekki dýrari, helst ódýrari en ella væri.