Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:17:58 (1141)

1999-11-04 14:17:58# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fram hjá því verður ekki litið að þetta frv. til fjáraukalaga endurspeglar þá þenslu sem er í þjóðfélaginu og margt í frv. ber lítil merki um aðhald í ríkisfjármálum og tekur ekki mikið mið af þeim viðvörunarbjöllum sem víða heyrist í þjóðfélaginu að séu að fara af stað, enda ljóst að ýmislegt sem hefur verið að gerast hér á undanförnum vikum og mánuðum hefur kynt undir verðbólguna.

Ég stend hér upp aðallega til að fara yfir það sem fram kemur í skýrslu ríkisendurskoðanda, sem dreift var í hólf þingmanna fyrir nokkrum dögum, um endurskoðun á ríkisreikningi 1998. Af hverju geri ég það? Það er vegna þess að Ríkisendurskoðun gerir að mínu viti mjög alvarlegar athugasemdir við fjáraukalög. Það er ekki bara að stjórnarandstaðan geri athugasemdir við fjáraukalögin úr þessum ræðustól heldur er ljóst að Ríkisendurskoðun gerir það einnig.

Áður en ég fer í þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun hefur gert við fjáraukalögin vil ég fara í nokkur atriði sem fram koma í frv. til fjáraukalaga. Ég vil fyrst beina sjónum mínum að því sem mér finnst mjög athyglisvert á þessum tímum aðhalds í þjóðfélaginu og það er þenslan sem við sjáum í fjáraukalagafrv. og fram kemur í aðalskrifstofum ráðuneytanna. Einmitt að því er varðar aðalskrifstofu ráðuneytanna þá ættu ráðherrarnir að sýna gott fordæmi á þessum tímum og beita ýtrasta aðhaldi í sínu ráðuneyti. En ég fæ ekki betur séð þegar farið er yfir aðalskrifstofur ráðuneytanna en farið sé fram á verulegar aukafjárveitingar og telst mér til að þær séu nálægt 90 millj. kr. í öllum ráðuneytunum. Ég minnist þess að hv. 6. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, vakti athygli á því þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að það kostaði veruleg útgjöld að bæta við tveimur ráðherrum sem ríkisstjórnin gerði, þ.e. að fjölga þeim úr 10 í 12, og hann nefndi tölur einhvers staðar nálægt 100 millj. á kjörtímabilinu. (Gripið fram í: Það er ekki það versta.) Ég fæ ekki betur séð í frv. en þetta megi að verulegu leyti rekja til fjölgunar m.a. á ráðherrum þar sem fram koma útgjöld vegna ráðherrabíla og bílstjóra, aðstoðarmanna o.fl. sem nýir ráðherrar hafa kallað eftir og er alveg full ástæða til að halda því til haga hversu stór hluti það er sem aðalskrifstofurnar taka til sín í frv. til fjáraukalaga.

Það eru auðvitað stórar tölur sem verið er að fjalla um í fjáraukalögum, að tekjur séu vanáætlaðar upp á 10 milljarða og í útgjöldum upp á tæpa 5 milljarða kr. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að ýmis af þeim útgjöldum sem fram koma í fjáraukalagafrv. eru fyrir séð útgjöld sem hefðu ekki þurft að koma í fjáraukalög og hefðu átt að koma fram í fjárlögunum sjálfum.

Ég sé að t.d. er rekstrarkostnaður 3 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, 3 milljarðar af þessum 5. Þegar skoðað er hvað þetta er nákvæmlega þá vekur athygli mína sú tala sem nefnd er, en hér er sagt orðrétt, með leyfi forseta: ,,Launa- og verðlagsbætur, einkum vegna úrskurða Kjaradóms og kjaranefndar nema samtals 600 millj. kr., ...`` Er það virkilega svo að rekja megi stærstan hluta af 600 millj. til úrskurða Kjaradóms og kjaranefndar? Þetta eru gífurlega háar tölur. Og ég tek til samanburðar það sem áætlað er núna á fjárlögum vegna kjarasamninga. Þar er áætluð 3% hækkun á launum, sem er u.þ.b. 1,5--2 milljarðar, og það á að nægja eins og hér er sett fram í launahækkanir til yfir 20 þúsund ríkisstarfsmanna. En þeir sem hafa fengið launahækkanir samkvæmt úrskurði Kjaradóms og kjaranefndar eru innan við þúsund manns. Ég man ekki betur en að kjaradómur hafi komið á miðju ári þannig að hér er um gífurlega háar tölur að ræða. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hversu mikið af þessum 600 millj. megi rekja til úrskurða Kjaradóms og kjaranefndar. Er það nærri því öll sú upphæð sem hér er nefnd? Þetta eru gífurlega háar tölur ef einungis er um að ræða hálft árið og þúsund manns, rétt innan við þúsund manns sem þiggja laun samkvæmt úrskurði Kjaradómi og kjaranefndar, en á móti eru áætlaðir 1,5--2 milljarðar í fjárlögum næsta árs í launahækkanir til yfir 20 þúsund ríkisstarfsmanna. Þessi samanburður er því mjög sláandi ef þetta er rétt.

Ég vil fara nokkuð inn á það sem nefnt hefur verið hér á undan sem er þenslan í húsbréfakerfinu. Ég trúi varla öðru en að hæstv. fjmrh. hafi einhverjar áhyggjur af því að verið er að fara fram á viðbótarheimildir upp á 7,4 milljarða í útgáfu húsbréfa. Fjárlögin gerðu ráð fyrir 23,3 milljörðum en áætluð útlán húsbréfadeildar eru upp á 30,7 milljarða, eða 7,4 milljörðum meira en áætlað var. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að Seðlabankinn, Þjóðhagsstofnun og Ráðgjafarstofa heimilanna hafa gert athugasemdir við það greiðslumat sem núna er í húsbréfakerfinu og á ríkan hátt í að auka svona útgáfu á húsbréfunum. Ég spurði Seðlabankann á sínum tíma, það var sennilega í marsmánuði, Þjóðhagsstofnun og Ráðgjafarstofu heimilanna um álit þeirra á því nýja greiðslumati sem tekið var upp fyrr á þessu ári. Seðlabankinn sagði að ekki væri heppilegt að rýmka viðmiðunarmörk greiðslumatsins um þessar mundir. Þjóðhagsstofnun sagði að hið rýmkaða greiðslumat gæti aukið þrýsting á vaxtastig og hækkað verð á húsnæði verulega. Allt þetta hefur nú komið fram. Þeir segja einnig hjá Þjóðhagsstofnun að rýmkun greiðslumats sé ekki skynsamleg ráðstöfun við núverandi efnahagsskilyrði. Ráðgjafarstofa heimilanna segir að sú viðmiðun sem notuð er nú sé mjög óheppileg og varar við því að leggja lágmarksframfærslukostnað til grundvallar greiðslumati lána í Íbúðalánasjóði, sem er svo lágt að það getur ekki nokkur einasta fjölskylda lifað af því nema þá í stuttan tíma í gegnum mikla greiðsluerfiðleika. En hér er verið að leggja til grundvallar greiðslumat til kannski 25 eða 40 ára. Nýja húsnæðislöggjöfin er þannig að þegar félagslega íbúðakerfið var lagt niður og greiðslumatið rýmkað, þá var miklu fleirum hleypt inn í húsbréfakerfið og opnað svo mjög fyrir aðgangi að húsbréfakerfinu að það hefur leitt til þessarar auknu útgáfu á húsbréfum. Nú getur verið að það sé allt í lagi að hleypa fleirum inn í húsbréfakerfið en hafa ber í huga hvort það fólk standi undir greiðslubyrðinni miðað við þetta greiðslumat. Ég veit að það fellur kannski ekki vel í kramið að vera að nefna að þrengja ætti aðgang að húsbréfakerfinu en við verðum að átta okkur á hvert stefnir í þessu máli, að greiðslumatið er eins rúmt og raun ber vitni og hefur kallað á þessa miklu útgáfu á húsbréfum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af útgáfu húsbréfanna sem er að aukast um 7 milljarða umfram fjárlög, hvort leitað hafi verið álits t.d. Seðlabankans á þessari miklu útgáfu á húsbréfum og hvaða áhrif það hefur almennt á þensluna og vaxtastigið í landinu. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að hafa leitað til Seðlabankans í því máli.

Ég vil vekja athygli á því sem fram kemur í DV í dag, þ.e. afleiðingum af breytingu á hinni nýju húsnæðislöggjöf. Þar kemur fram að sprenging á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu hafi alvarleg áhrif, fram undan sé röð hækkana á fasteignagjöldum, erfðafjárskatti, eignarskatti og stimpilgjöldum sem stórhækka. Þessi hækkun á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu er einkum vegna hinnar nýju húsnæðislöggjafar vegna þess að fleiri leita á almenna markaðinn eftir að félagslega kerfinu var lokað og síðan vegna fólksflóttans af landsbyggðinni yfir á höfuðborgarsvæðið. Allt þetta hefur áhrif á þensluna og verðbólguna í þjóðfélaginu sem flestir hafa nú áhyggjur af. Ég tel því mikilvægt þegar ráðherrann er að leita heimildar hjá Alþingi að auka svona verulega útgáfu á húsbréfum, að hann upplýsi Alþingi um skoðun sína á því og hvort leitað hafi verið til Seðlabankans eða Þjóðhagsstofnunar um mat á áhrifum þess að auka útgáfuna á húsbréfum. Ég tala nú ekki um hvaða áhrif það hefur á greiðsluerfiðleika hjá fólki að rýmka svona greiðslumatið og gæti komið fram á komandi mánuðum og missirum.

Þá vil ég fara í það sem ég sérstaklega stóð upp til að vekja athygli á og það er það sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 1998, sem ég geri ráð fyrir að eigi alveg eins við núna varðandi frv. til fjáraukalaga 1999, sem við erum að fjalla um, vegna þess að gerðar eru alvarlegar athugasemdir við fjáraukalögin. Gerðar eru bæði athugasemdir við tekju- og útgjaldahliðina í fjáraukalögunum varðandi 1998, en þar er vakin athygli á flutningi greiðsluheimilda sem voru um 2,8 milljarðar kr. á árinu 1997. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir orðrétt, með leyfi forseta:

[14:30]

,,Ríkisendurskoðun hefur í skýrslum sínum undanfarin ár margsinnis gert athugasemdir við framkvæmd fjáraukalaga og flutning greiðsluheimilda milli ára. Þannig hefur t.d. borið á því að fjárlagaliðir sem áttu ónotaðar greiðsluheimildir í árslok hafi fengið aukafjárveitingar í fjáraukalögum. Þessar greiðsluheimildir eru síðan iðulega fluttar yfir á næsta fjárlagaár. Ríkisendurskoðun telur að taka eigi tillit til aukafjárveitinga af þessu tagi við fjárlagagerð ársins, en ekki í fjáraukalögum sem yfirleitt eru samþykkt um svipað leyti og fjárlögin. Þá telur stofnunin óæskilegt að flytja greiðsluheimildir á safnliðum ýmiss konar milli ára ef fyrirsjáanlegt er að greiðsluheimildir verði ekki nýttar á árinu, en fjölmörg dæmi hafa verið um slíkt síðustu ár.``

Þessum athugasemdum fylgir tafla um heildargjöld í samanburði við fjárlög og greiðsluheimildir fyrir árið 1998. Þar er vakin athygli á því að nær öll ráðuneyti séu undir greiðsluheimildum á árinu 1998 eða samtals að fjárhæð 3,7 milljarða kr. Síðan segir orðrétt:

,,Ríkisendurskoðun telur þessa staðreynd benda ótvírætt til þess að full ástæða sé til að endurskoða vandlega þá tilhögun sem viðhöfð er nú við framkvæmd fjáraukalaga og flutning greiðsluheimilda milli ára, sbr. sérstaka umfjöllun hér að framan.``

Ég vildi gjarnan, herra forseti, fá álit hæstv. fjmrh. á þeim athugasemdum sem hér koma fram hjá Ríkisendurskoðun og spyrja hæstv. ráðherra hve miklar yfirfærðar fjárheimildir séu frá árinu 1998. Hvaða fjárhæðir eru áætlaðar í væntanlegri yfirfærslu fjárheimilda yfir á næsta ár? Ég spyr um það vegna þess að í grg. með frv. sem við erum að fjalla um er rætt um þessar fjárheimildir og hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Einnig valda yfirfærðar fjárheimildir frá árinu 1998 til þessa árs því, auk væntanlegra yfirfærslufjárheimilda yfir á næsta ár, að áætlun um útkomu ársins er ekki í fullu samræmi við þær fjárheimildir sem sótt er um.``

Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort ekki sé rétt að staldra aðeins við um áramótin og afturkalla þær fjárheimildir sem ráðuneytin nýta ekki. Hér er vakin athygli á því að á árinu 1998 voru nær öll ráðuneyti undir greiðsluheimildum, samtals að fjárhæð 3,7 milljarðar kr. Það er því eitthvað athugavert við þetta enda gerir Ríkisendurskoðun athugasemdir hér við.

Ríkisendurskoðun gerir líka athugasemd við tekjuhliðina í fjáraukalögum. Hér í þessum athugasemdum Ríkisendurkoðunar segir orðrétt:

,,Í fjáraukalögum fyrir árið 1998 sem samþykkt voru í lok des. 1998 var tekjuhliðin endurskoðuð um 9,4 milljarða kr. til hækkunar. Innheimtar tekjur voru þannig um 1,2 milljörðum kr. yfir áætlun eða sem nemur 0,7%.

Ríkisendurskoðun telur að þau umtalsverðu frávik sem fram koma í tekjuinnheimtu ríkissjóðs á árinu 1998 og undanfarin ár hljóti að beina sjónum að þeim efnahagsforsendum sem tekjuáætlun ríkissjóðs grundvallast á.``

Hér vekur Ríkisendurskoðun athygli á því --- ég get ekki lesið annað út úr því --- að það hljóti að þurfa að skoða betur þær efnahagsforsendur sem tekjuáætlun ríkissjóðs grundvallast á. Við erum ekki að tala um nein smáfrávik í tekjuáætluninni. Við erum að ræða um 10 milljarða kr. tekjur umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir.

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann hafi að segja um þessar athugasemdir Ríkisendurskoðunar og hvort hann telji ekki ástæðu til að bregðast við þeim og þá kannski sérstaklega að skoða þær greiðsluheimildir sem fara yfir áramót. Þessu vildi ég halda til haga í umræðunni um fjáraukalögin.

Í lokin vil ég spyrja hæstv. ráðherra um eitt sem vakti mjög athygli mína í ríkisreikningi fyrir árið 1998. Það á vissulega heima í umræðunni um aðhald í ríkisrekstri og hvernig hægt væri að halda betur á málum. Frá því 1983 hefur ríkisreikningur haft að geyma upplýsingar um sundurliðaðan ferðakostnað, risnu- og aksturskostnað hjá einstaka stofnunum og ráðuneytum. Þær hafa verið sundurliðaðar á einstakar stofnanir og ráðuneyti. Þetta var gert samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 1983.

Nú ber svo við að í ríkisreikningi fyrir 1998 hefur þetta fallið niður. Í fyrsta skipti frá árinu 1983 eru engar upplýsingar með sundurliðun á risnu-, ferða- og bílakostnaði einstakra stofnana og ráðuneyta. Ég tel þetta mjög til baga og draga úr því að þingið geti haft nauðsynlegt eftirlit með framkvæmdarvaldinu og einstaka stofnunum að því er þessa þætti varðar. Ég held að það hafi verið mjög til bóta þegar lögin voru samþykkt 1983, að þessi sundurliðun kom fram árlega í ríkisreikningi. Bankarnir hættu fyrir fjórum eða fimm árum að veita þessar upplýsingar í ársreikningi og nú hefur ríkisvaldið fylgt fordæmi þeirra og sleppir þessum upplýsingum úr ríkisreikninginum.

Ég spyr um þetta, herra forseti, vegna þess að á síðasta þingi flutti ég frv. um að skylt yrði að þessar sundurliðuðu upplýsingar kæmu fram í ársreikningi bankanna og hjá ríkisaðilum. Það er auðvitað enn brýnna en áður að fylgja þessu frv. eftir og leggja fram á þingi þegar svo er komið að ríkisvaldið er hætt að veita þessar upplýsingar í ríkisreikningi sínum. Þær eru mjög mikilvægar fyrir það hlutverk þingmanna í þessari virðulegu stofnun að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.