Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 15:13:41 (1150)

1999-11-04 15:13:41# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ruglar alveg saman því ákvæði kjarasamninga sem snýr að framgangskerfi og svo módelinu sem við notum varðandi skólana. Módelin um grunnskólana hafa gengið mjög vel. Þetta eru mjög merkileg módel og aðferð ríkisvaldsins til þess að reyna á hlutlægan hátt að vita hvernig útgjöldum er varið.

Ég skora á hv. þm. að kynna sér módelin vegna þess að þau eru mjög merkileg og ganga mjög vel. Þau eru um framboð, vísitölu námsefnis og hvernig við beitum henni á þessa skóla, þ.e. vísitalan 1 fyrir menntaskóla í bóknámi og hæst er farið í verknámi upp í 2,6, að mig minnir.

Það er einmitt þetta sem vantar á spítalana en ekki öfugt. Það vantar módelsmíð fyrir spítalana þannig að hægt sé að höndla það, hægt sé að hafa það í hlutlægu formi hvaða greiðslur eiga sér stað þarna, vegna þess að við erum alltaf í þessu eilífa togi um spítalana. Þetta er alltaf eitthverju limbói. Menn eru að togast á um tugi og hundruð millj. Okkur vantar einmitt að koma þessu inn í hlutlægt form. Það er vandamálið. Það á hins vegar ekkert skylt við það hvernig við göngum fram í kjarasamningum. Þar voru gerð ákveðin mistök að mínum dómi eins og ég fór rækilega yfir í ræðu minni vegna þess að til staðar var ekki nægjanlegt þrek eða nægileg þekking eða vilji til þess að virða ramma fjárlaganna. Þess vegna var farið út á mjög óvarlegar brautir í kjarasamningunum 1997 með því að dreifa svo valdinu og senda það til forstöðumanna vegna þess að þeir voru ekki undir það búnir að neinu leyti. Það verður að þroska það miklu meira áður en við getum notað þá aðferð og hætta við þetta. Við hurfum frá miðstýringunni í launamálum án þess að undirbúa það nógu vel. Þetta verðum við að viðurkenna og þetta verðum við að hafa í huga þegar við hverfum til nýrra kjarasamninga.