Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 15:15:49 (1151)

1999-11-04 15:15:49# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð því miður að hryggja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson með því að ég er alveg viss um að formhyggjan, þessi trú á módelin og allar þær brellur til að kalla hlutina öðrum nöfnum en þeir mega heita, þ.e. bara kaup, munu hrynja. Það getur verið ágætt að búa sér til einhver viðmið til að meta skólastarf, framboð námsefnis og annað slíkt, en að ætla fara að gera það að trúarbrögðum og láta módelið og reiknikúnstirnar bera almenna skynsemi ofurliði er ekki gott. Almenn skynsemi sem segir manni að litlar og sérhæfðar stofnanir í dreifbýli verði dýrari í rekstri en stórar og fjölmennar. (Gripið fram í.) Þá fer formúlan að reyna að elta veruleikann og menn þurfa að breyta formúlunni og smátt og smátt aðlaga þeir hana að þeim aðstæðum ef einhver skynsemi er á ferðum. Að lokum standa menn uppi með nokkurn veginn sömu útkomu eftir allan barninginn.

Það er svo augljóst í mínum huga að þessar æfingar t.d. í launamálum á heilbrigðisstofnunum munu hrynja. Þær hafa gert það annars staðar. Í nágrannalöndunum eru menn víðast hvar hættir að reyna þetta. Þar hefur verið farið í gegnum þessar æfingar fyrir 10--20 árum, í Svíþjóð og Danmörku og víðar. Þar fóru menn út í alls konar slíkar æfingar, reikniformúlur, kvótakerfi á launaflokka, framgangskerfi og allt þetta dót. Nú eru menn hættir þessu. Af hverju? Af því að þetta reyndist allt saman tóm steypa. Það langgáfulegasta í þessu eru bara ósköp einfaldlega hreinar og klárar línur. Kaup og reglur um vinnutíma, gagnsætt og uppi á yfirborðinu og búið. Ekkert jukk af þessu tagi því að það skapar alls konar vandræði, það skapar óeiningu á vinnustöðunum, leiðinlegan móral o.s.frv.

Hvernig haldið þið að það sé fyrir fólk sem hefur unnið á spítölunum á sérstökum deildum árum saman, hlið við hlið í sömu störfum, fólk með sömu menntun sem haft hefur sömu laun og yfirmaður þeirra kemur og segir: Ég verð að ákveða að sum ykkar fari í A-flokk, sum í B og sum í C. Hvernig í ósköpunum ætla menn að réttlæta slíkt? Þetta er bara tóm endaleysa, herra forseti.