Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 15:37:20 (1154)

1999-11-04 15:37:20# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal kom víða við í ræðu sinni og fór hörðum orðum um stjórnun innan ríkisgeirans. Hann sagði að rétt væri að draga menn til ábyrgðar. En hverja ætti fyrst og fremst að draga til ábyrgðar? Væntanlega þá sem bera ábyrgð á æðstu stjórnun kerfisins. Hverjir hafa gert það undanfarin átta ár? Það eru hæstv. fjármálaráðherrar Sjálfstfl. Af hverju þorir Pétur Blöndal, herra forseti, ekki að segja hlutina eins og þeir eru? Af hverju talar hann ekki hreint út? Af hverju dregur hann ekki þá eðlilegu ályktun af því sem hann er sjálfur að segja að fjármálaráðherrar Sjálfstfl. hafi einfaldlega ekki staðið sig í stykkinu? Vill hv. þm. halda því fram að þeir séu sérstaklega undanþegnir ábyrgð af því sem hann lýsti?

Varðandi síðan, herra forseti, þá staðreynd sem hv. þm. nefndi, að í stjórn Ríkisspítalanna væru þingmenn. Hvers vegna koma menn ekki og skamma þingmenn, sagði hv. þm. Eftir því sem ég best veit þá ætti hann að tala í eintölu því að eini þingmaðurinn sem þarna er í stjórn er einmitt flokkssystir hans.