Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:11:51 (1164)

1999-11-04 16:11:51# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að allir geti deilt óskum hv. þm. um að þannig verði um hnútana búið að reka megi sveitarfélögin með viðunandi hætti og helst hallalaus á komandi ári, að þannig verði búið um tekjustofna þeirra. En vandamálið sem við er að etja í andartakinu er ekki vegna þess heldur fortíðarvandi sem ég vitnaði til og hv. þm. Vilhjálmur Vilhjálmsson hefur einnig farið mörgum orðum um, þ.e. þeir fjármunir sem sveitarfélögin hafa orðið að sjá af fram til dagsins í dag. Spurning mín til hæstv. fjmrh. og til hv. þm. hlýtur því að vera: Hvernig sér hv. þm. að ríkissjóður bæti sveitarfélögum þann skaða í fjármálalegum samskiptum sem þegar er orðinn? Þá 2--3 milljarða sem þegar hafa safnast upp og orsakað þann mikla vanda sem sveitarfélög eiga við að etja? Það gerist ekki á næsta ári eða þar næsta ári. Það gerist ekki með því að hækka útsvarið árið 2001 eða breyta tekjustofnum árið 2003. Spurningin er: Hvernig gerist það núna á haustdögum, á líðandi stund?