Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:14:58 (1167)

1999-11-04 16:14:58# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að fara yfir nokkur mál. Mér þykir umræðan um þessi fjáraukalög hafa verið sérkennileg. Hérna hefur stokkið í pontu hver vinstri maðurinn á fætur öðrum, talað um aðhald, hneykslast á framúrkeyrslum o.s.frv. Ég bara þekki þetta ekki frá þessu fólki en batnandi mönnum er best að lifa.

Ég vil hrósa hæstv. fjmrh. fyrir góðan árangur ef hann ætlar að skila 10 milljörðum í afgang á þessu ári. Ég held að þingheimur ætti að vera ánægður með það. Ég aftur á móti sammála hv. þm. sem hér hafa talað, að það er óþolandi að menn geti keyrt fram úr heimildum án þess að tala við kóng eða prest og senda svo reikninginn til ráðherrans. Slíku á að taka á.

Varðandi ríkið og sveitarfélögin þá hef ég verið talsmaður þess að menn semdu og hef löngum verið þeirrar skoðunar. Menn leysa ekki slíkt á torgum með því að garga hver á annan. En það er tímabært að semja. Það er gersamlega óþolandi hvernig þessi staða er varðandi skattalagabreytingar og margt annað. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, hv. þm. Vilhjálmur Vilhjálmsson, rakti það hér áðan.

Af því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom aðeins inn rekstur sveitarfélaganna og minntist þar á mitt sveitarfélag, Kópavog, vil ég biðja hann um að lesa hvað stendur í árbók Sambands ísl. sveitarfélaga, þ.e. að rekstur Kópavogs er til mikillar fyrirmyndar og hefur kannski sérstöðu meðal sveitarfélaganna. Tekjuafgangur okkar árið 1998 var tæplega 700 millj. Ég bið hann að kynna sér það mál. En ég tel mikla bjartsýni að ætla að hafa hallalausan rekstur sveitarfélaganna árið 2000. Það yrði kraftaverk.