Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:26:23 (1175)

1999-11-04 16:26:23# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), Flm. BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:26]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Meginhlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna er að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag. Sjóðurinn er jöfnunarsjóður sem á að tryggja að enginn þurfi að hætta við nám vegna fátæktar eða annarra ytri aðstæðna. Lög Lánasjóðs ísl. námsmanna kveða á um að miða skuli við að námslán á hverjum tíma dugi og séu með þeim hætti að námsmönnum sé gert kleift að standa straum af náms- og framfærslukostnaði.

Í 3. lið 5. gr. laga um Lánasjóð ísl. námsmanna segir að sjóðnum beri að afla gagna um grunnframfærslu og þörf námsmanna á námslánum. Þessu hlutverki hefur sjóðurinn alls ekki sinnt og fór slík könnun á grunnframfærslu síðast fram árið 1975. Ég tel því augljóst að sjóðurinn er að brjóta lög með því að hafa ekki framkvæmt slíka könnun í 24 ár, enda er upphæð grunnframfærslu lánasjóðsins verulega á skjön við raunveruleikann.

Sé litið til samanburðar við nágrannalönd okkar kemur í ljós að full námsaðstoð á ári við námsmenn er svipuð og jafnvel hærri á Íslandi, en það sem er sláandi í samanburði við hin Norðurlöndin er að frítekjumark námsmanna á Íslandi er 250 þús. kr. á ári á meðan það er tæplega 809 þús. kr. í Danmörku og 782 þús. í Svíþjóð. Þetta misræmi kemur til af því að ekki hefur farið fram grunnframfærslukönnun á þörf námsmanna fyrir námslán á Íslandi. Þarna er því um að ræða gríðarlega mikinn mun á aðstöðu ungs fólks til að stunda nám. Í þessum löndum er því námsfólki alla vega gefinn kostur á að vinna sig upp í bærileg kjör á meðan íslenska kerfið kemur algerlega í veg fyrir það og er beinlínis vinnuletjandi. Þetta er gríðarlegur galli á okkar kerfi.

Einnig er mikilvægt að átta sig á því að stuðningskerfi við námsmenn í þessum löndum felur í sér styrkjakerfi sem er ekki fyrir hendi hér. Allar tiltækar upplýsingar ber að sama brunni. Á Íslandi eru framlög til menntamála með þeim hætti að okkar námsfólk getur ekki með nokkru móti talist sitja við sama borð og kollegar þess í okkar helstu samanburðarlöndum.

Virðulegi forseti. Jafnrétti til náms er grunnstoð þess velferðarsamfélags sem þjóðin hefur byggt upp. Því mælist ég eindregið til þess við hæstv. menntmrh. að hann beiti sér fyrir því að Lánasjóður ísl. námsmanna láti af lögbrotum sínum og sinni skyldu sinni sem jöfnunarsjóður. Það má aldrei verða að nám á Íslandi verði að forréttindum fárra í stað þess að vera sjálfsögð réttindi allra líkt og við í Samfylkingunni höfum lagt sérstaka áherslu á. Til að tryggja jafnrétti til náms er lykilatriði að réttar upplýsingar um grunnframfærsluþörf námsmanna liggi fyrir. Í ljósi þess vil ég, hæstv. forseti, bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. ráðherra:

1. Mun hann beita sér fyrir því að fram fari á vegum Lánasjóðs ísl. námsmanna könnun á grunnframfærsluþörf námsmanna líkt og lög sjóðsins kveða á um?

2. Mun hann beita sér fyrir því að frítekjumark námsmanna verði hækkað til samræmis við það sem gerist í Danmörku og Svíþjóð og að námslán verði hækkuð til samræmis við niðurstöðu könnunar á grunnframfærsluþörf námsmanna?

3. Mun hann beita sér fyrir því að húsaleigubætur verði ekki skattskyldar? En eitt af því sem slík könnun gæti leitt í ljós er það óréttlæti sem felst í því að húsaleigubætur eru skattskyldar og bitna þá á þeim námsmönnum sem ekki eiga kost á því að búa í heimahúsum eða kaupa sér íbúð. Húsnæðisbæturnar dragast frá námslánum en vaxtabætur ekki og felst í því mikið óréttlæti sem brýnt er að leiðrétta sem fyrst.