Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:37:58 (1178)

1999-11-04 16:37:58# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), PM
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:37]

Páll Magnússon:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að taka til máls utan dagskrár um málefni lánasjóðsins og þakka einnig hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Ég vil hins vegar rifja upp þann grunnvanda sem lánasjóðurinn býr við en það er auðvitað hin mesta aðför sem gerð hefur verið að sjóðnum í sögu hans, þegar Sjálfstfl. og Alþfl. samþykktu ný lög í maí árið 1992 um lánasjóðinn. Þetta var gert í harðri andstöðu við námsmannahreyfinguna og var ég meðal þeirra sem sat þá uppi á þingpöllum og mótmælti. Þá voru unnin mikil spjöll á réttindum námsmanna og þau stærstu voru að afnema samtímagreiðslur til námsmanna. Þeim rétti hefur enn ekki verið náð aftur og lagasetningin frá 1992 er enn að bitna á námsmönnum.

Það skal einnig rifjað upp hér að í menntamálaráðherratíð Sverris Hermannssonar var unnið frv. til breytinga á lögum um lánasjóðinn og var það nokkuð svipað því og varð að lögum árið 1992. Frv. Sverris Hermannssonar strandaði hins vegar í þingflokki Framsfl. og var ekki lagt fram. Eins og nú vöktu málefni lánasjóðsins athygli utan þingsala og var þáv. borgarstjóri í Reykjavík, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, meðal þeirra sem tjáðu sig um málið og gagnrýndi vinnubrögð Sverris Hermannssonar, þáv. menntmrh., og sagði að breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna yrðu aldrei unnar nema í góðri sátt við námsmenn. Hv. þm. Sverrir Hermannsson, þáv. menntmrh., svaraði Davíð Oddssyni, núv. forsrh., í fjölmiðlum því til að kosningaskjálfti hefði gripið borgarstjórann sem þá væri á leiðinni í kosningar. En orð Davíðs Oddssonar, þáv. borgarstjóra og núv. hæstv. forsrh., voru auðvitað alveg sönn. Breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna verða aldrei unnar nema í sátt við námsmenn og það er mergurinn málsins. Það verður að nást aftur sátt um lánasjóðinn, sátt sem ríkti fyrir 1992 en hefur ekki ríkt síðan.