Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:40:33 (1179)

1999-11-04 16:40:33# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í gegnum árin hefur Sjálfstfl. á hátíðum og tyllidögum verið með háleitar yfirlýsingar um að það mikilvægasta sem liggi fyrir til að bæta lífskjör þjóðarinnar sé að bæta menntunarstigið og get ég vissulega tekið undir það markmið. En svo ber þó ævinlega við að ekki er fyrr búið að slíta skrautsamkomum flokksins en þessi háleitu markmið virðast vera gleymd og grafin og virðist þá oft og tíðum vera helsta markmið hæstv. menntmrh. að víkja sér undan þeim með sem billegustum hætti.

Það hefur verið raunalegt að fylgjast með því hvernig ráðherrann hefur í undangengnu góðæri virt að vettugi allar áskoranir sem hann hefur fengið um að láta fara fram rannsókn á því hver grunnframfærslan væri og þar af leiðandi þörf námsmanna fyrir námslán til að geta framfleytt sér og sínum og til að stunda jafnframt sitt nám. Þó er eins og hér hefur fram komið slík athugun lögbundin. Það er yfirlýst stefna sitjandi ríkisstjórnar að halda atvinnuleysisbótum neðan við hungurmörk til þess, eins og það hefur verið orðað, að freista ekki fólks til að ganga atvinnulaust og grunnframfærslu námsmanna er síðan haldið samviskusamlega þar fyrir neðan að maður skyldi ætla til að freista ekki þeirra sem hafa lítil efni til náms til að leggja út í slíkt.

Til að gulltryggja þessa sultartilveru er svo sett frítekjumark sem er fyrir neðan allt velsæmi og fyrir neðan allt sem þekkist í nálægum löndum svo námsmenn falli ekki í þá freistni að vinna með eins og það er kallað. Þetta kemur verst niður á þeim sem hafa engan til að treysta á nema sjálfan sig því að ýmis aðstoð sem þeir sem betur mega sín fá frá aðstandendum telur ekki inn í frítekjumarkið. Þetta vinnur gegn lögum, þetta vinnur gegn jafnrétti til náms, við svo búið má ekki standa, hæstv. forseti.