Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:51:37 (1184)

1999-11-04 16:51:37# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:51]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta mál sem hér er til umræðu er í rauninni mikið hagsmunamál. Það er fjárfesting í ungu fólki, fjárfesting til framtíðar, fjárfesting í menntun og tækifærum. Ég tek alveg heils hugar undir að fyllilega er ástæða til að endurskoða grunnframfærsluna sem byggt er á.

Ég vil einmitt draga fram stöðu nemenda, ungs fólks sem kemur utan af landi hingað til Reykjavíkur því að meginhluti náms, framhaldsnáms, háskólanáms og tæknináms er staðsett hér. Samkvæmt þeirri stefnu sem virkar í reynd þá er líka aukinn hluti alls starfsnáms eða tæknináms að færast hingað þannig að þetta unga fólk þarf að koma hingað til að sækja það nám. Þá mætir því uppsprengdur leigumarkaður og ekki bara uppsprengdur að verði til, heldur er líka mjög erfitt að fá leigt, og er mjög takmarkað tillit tekið til þess í grunnframfærslunni. Ferðakostnaður þessa fólks og annar kostnaður sem hlýst af að búa úti á landi er töluverður og ástæða væri til að tekið væri aukið tillit til hans.

Ég vil líka nefna stöðu starfsnáms, sérnáms og tæknináms innan lánareglanna, að þar er um talsverða mismunun að ræða sem þyrfti líka að leiðrétta. Þegar á allt er litið er virkileg þörf á og mjög brýnt að taka þessar reglur til endurskoðunar og hæstv. menntmrh. má alveg flýta þeim þó að þetta sé í vændum.