Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 17:08:29 (1191)

1999-11-04 17:08:29# 125. lþ. 20.9 fundur 102. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (varðveisla skipa) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason.

1. gr. laganna hljóðar svo:

,,Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Fjárhæð styrks skal nema 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu eftir 1. janúar 1990.``

2. gr. laganna er um það að lögin öðlist þegar gildi.

Herra forseti. Þegar tekin var upp sú aðferð hér á landi að styrkja útgerðarmenn til þess að úrelda fiskiskip varð til þróun sem olli því að fiskiskip voru eyðilögð. Forsjálir menn hafa þó séð til þess að örfá skip eru enn til í sumum byggðarlögum sem varðveita sögu skipasmíða og sögu útgerðar. Oftast er verið að varðveita þessi skip á byggða- og sjóminjasöfnum. Nú er það svo að skip þurfa viðhald þó á landi séu og ljót og ómáluð skip vekja lítinn áhuga, jafnvel þó við nafn þeirra og sjósókn sé tengd mikil og merkileg saga. Á næstu árum munu trébátar vertíðarflotans týna tölunni og því eigi seinna vænna ef varðveita mætti það merkasta sem enn er til óskemmt eða varðveisluhæft fyrir framtíðina. Á einstaka stöðum á landinu má enn finna byggingar, vélar, búnað og áhöld sem varðveita sögu okkar, t.d. síldarminjar á Siglufirði eða síldarbræðslur norður á Ströndum. Úrelding eigna sem síðan eru teknar til annarra nota eða niðurrifs gera okkur fátækari af eigin sögu. Að því ber að hyggja fyrr en seinna.

Á landinu öllu er talið að varðveitt séu u.þ.b. 100 skip af ýmsum stærðum. Af þeim fjölda er talið að um 50 skip séu þilfarsskip og að líklegt sé að 25--30 þilfarsskip hafi verið tekin til varðveislu á þessum áratug frá því lög nr. 38/1990 voru sett og í framhaldi af þeim lög um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Hlutverk laganna um Úreldingarsjóð fiskiskipa var að nota fé sem til hans var lagt til að kaupa upp gömul skip og farga eða selja úr landi. Þannig var að því stefnt að skipum fækkaði í flotanum. Þessi stífu ákvæði urðu til þess að skip voru söguð niður og þeim eytt. Í viðræðum mínum við Egil Ólafsson, fyrrverandi safnvörð á Hnjóti, sem nú er nýlátinn, urðum við sammála um það sjónarmið að það væri til vansa að enginn sérstakur tekjustofn væri markaður því hlutverki að varðveita skip sem ættu sér merka sögu. Eins og áður segir er hér lagt til að Þróunarsjóður, sem tók við af Úreldingarsjóði, fái líka það hlutverk að varðveita sögu fiskveiðiflotans. Hér er eins og áður segir um eingreiðslu að ræða á hvert það skip sem varðveitt er fyrir komandi kynslóðir.

Ef gert er ráð fyrir að fjöldi skipa sé t.d. 30 skip og stærð þeirra sé að meðaltali 20 rúmlestir þá er rúmlestasamtalan 600 rúmlestir. Kostnaður sem þannig legðist á Þróunarsjóðinn miðað við 50.000 kr. eingreiðslu í viðhald á hverja rúmlest skipa yrðu miðað við áður nefndar forsendur um 30 millj. kr. Ítreka ber að hér er um eingreiðslu vegna hvers skips að ræða.

Rétt er að upplýsa að Þróunarsjóður sjávarútvegsins hefur á undanförnum árum fengið inn tekjur sem í raun var búið að afskrifa. Sl. þrjú ár, 1996, 1997 og 1998, hafa að meðaltali komið inn til baka, bakfært af afskriftareikningi, um 230 millj. kr. á hverju ári, eða samtals rúmar 696 millj. sl. þrjú ár. Þetta er fé sem menn gerðu ráð fyrir að þyrfti að afskrifa og var áður tengt atvinnutryggingardeildinni þannig að fjármunir í Þróunarsjóði sjávarútvegsins ættu að vera nægir til að takast á við þetta litla verkefni að varðveita hluta af skipasögunni fyrir komandi kynslóðir.