Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 17:18:02 (1193)

1999-11-04 17:18:02# 125. lþ. 20.9 fundur 102. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (varðveisla skipa) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[17:18]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að hér sé hreyft mjög merku máli. Ég tel fulla ástæðu til að skoða hvort, ef ekki verður að gert, að við séum að missa af tækifæri til að halda til haga mjög merkri sögu. Ég vil því taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Ég hef hins vegar ekki skoðað þetta það gaumgæfilega að þetta sé sú leið sem fara beri. Hins vegar liggur fyrir að á undanförnum 20 árum hafa orðið slíkar breytingar í sjávarútvegi og útgerð að ef ekki verður að gert þá er hætta á að við glötum möguleikanum á að varðveita skip sem snerta þessa sögu.

En erindi mitt hingað eru fyrst og fremst, virðulegi forseti, tvær spurningar til hv. flm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Í fyrsta lagi vildi ég vita hvernig hann hefur hugsað sér að ákvarðanir verði teknar um hvaða skipum skuli haldið til haga. Í öðru lagi spyr ég hvort það séu þá hafnarstjórnir sem mest hafi um málið að segja eða hvort það sé Þróunarsjóðurinn sem ákveði það. Ég held, virðulegi forseti, að ágætt væri ef það yrði skýrt. Eins og ég sagði áðan vantar örlítið upp á að maður átti sig nákvæmlega á hvert hér er verið að fara. Ég ítreka að málið er merkilegt og ástæða er til að skoða það betur. Ég hvet nefndina sem tekur við þessu máli til að gera það mjög vandlega.