Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 17:22:26 (1195)

1999-11-04 17:22:26# 125. lþ. 20.9 fundur 102. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (varðveisla skipa) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[17:22]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls um þetta mál fyrir jákvæðar undirtektir. Auðvitað geri ég og við flutningsmenn allir okkur grein fyrir því að þetta mál fer til meðferðar í nefnd. Ég legg til að það fari til meðferðar í sjútvn.

Varðandi spurningar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar þá tel ég að þeir fjármunir sem hér er lagt til að markaðir verði séu í raun það knappir að söfn sem taka skip til varðveislu muni ekki sjá sér hag í því, ef hægt er að orða það svo. Þau munu því ekki fjölga skipum á söfnum umfram það sem telja má að hafi virkilegt sögulegt gildi. Ég tel að Þróunarsjóðurinn eigi ekki að koma að því að ákvarða hvaða skip verði tekin til varðveislu, það séu fyrst og fremst þeir sem hafa með stjórn safnanna að gera og áhugafólk um varðveislu sögu og minja sem leggi það til. Síðan tækju söfnin ákvörðun um hvaða skip þau treysta sér til að varðveita. Hér er um það knappa fjárhæð að ræða að þó að 20 lesta skip fengi 1 milljón með sér til viðhalds og varðveislu þá dugar það ekki til þess að gera það áhugaverða tekjulind. En það mundi vafalaust gera söfnunum kleift að geta tekið tekið slík skip til varðveislu telji þau sögu þeirra það merka. Ég held að öðrum verði ekki betur falið það hlutverk en þeim sem söfnunum stjórna og áhugafólki um minjar að leggja mat á sögulegt gildi skipanna. Það sjáum við best á frumkvæði þeirra manna sem hafa tekið það að sér að stjórna söfnum þessa lands. Framsýni þeirra hefur dugað til að varðveita hluta af sögunni sem ella hefði týnst.