Staðlar fyrir mannafla á lögreglustöðvum

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:37:12 (1201)

1999-11-10 13:37:12# 125. lþ. 21.2 fundur 125. mál: #A staðlar fyrir mannafla á lögreglustöðvum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Á síðustu missirum og árum má segja að þörf fyrir löggæslu í landinu hafi vaxið stórlega. Meginorsök þess er ugglaust verulegar breytingar á samfélaginu, stærra þéttbýli og það sem sumir hafa viljað kalla lausung á ýmsum sviðum, vaxandi fíkniefnavandi, meiri umferð á vegum úti og meiri hraði í samfélaginu öllu og þannig má áfram telja. Þessar forsendur hafa í rauninni kallað á aukna löggæslu í samfélaginu en það virðist vera nokkuð á reiki hvernig til hafi tekist í þeim efnum. Hér á hv. Alþingi fóru ekki fyrir löngu fram umræður um bakvaktir, m.a. í Grindavík og öðrum stöðum úti á landi. Rætt hefur verið um vaktir á tilteknum hverfum á höfuðborgarsvæðinu. Bent hefur verið á að fámennari staðir á landsbyggðinni hafi einungis einn löggæslumann á vakt og þannig á áfram telja.

Þá má taka dæmi af stærri umdæmum þar sem fjórir til fimm löggæslumenn eru á vakt hverju sinni en það má telja til efs að slík embætti geti í raun sinnt slysaútköllum ef á reynir, hvað þá að sinna öðrum skyldum sínum. Þetta vilja sumir segja að jaðri við neyðarástand.

Það virðist því, herra forseti, vera nokkuð á reiki hve mikill mannafli sé til staðar eða hver mannaflaþörf er á lögreglustöðvum landsins. Sums staðar virðist þörfinni sinnt þokkalega meðan annars staðar eru hrein vandræði. Því spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort til séu einhverjir staðlar eða viðmið um mannaflaþörf á lögreglustöðvum, staðlar eða viðmið sem taki mið af þörfinni fyrir löggæslu á hverjum stað svo sem að sinna forvörnum, slysaútköllum, fræðslu, eftirliti alls kyns og þar fram eftir götunum. Með öðrum orðum, hvað þarf til þess að tryggja lágmarksöryggi þegna landsins? Ég spyr hæstv. dómsmrh. hvort til séu einhverjir staðlar um lágmarksmannafla á lögreglustöðvum.