Staðlar fyrir mannafla á lögreglustöðvum

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:39:45 (1202)

1999-11-10 13:39:45# 125. lþ. 21.2 fundur 125. mál: #A staðlar fyrir mannafla á lögreglustöðvum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Eru til staðlar um mannafla á lögreglustöðvum?``

Þessari fyrirspurn hv. þm. er fljótsvarað. Staðlar af þeirri tegund sem vísað er til í fyrirspurninni eru ekki til. Það fer því eftir ákvörðun hvers lögreglustjóra hvernig mannafla á embættunum er skipt, þ.e. á lögreglustöð annars vegar og í eftirliti hins vegar. En þetta fer auðvitað eftir aðstæðum hverju sinni.

Samkvæmt tölum frá ríkislögreglustjóranum voru að meðaltali 493 íbúar á bak við hvern lögreglumann í landinu í desember 1998. Þar sem hér er um meðaltalstölu að ræða gefur augaleið að þessi fjöldi er sums staðar töluvert hærri en 500, en sú tala hefur oft verið notuð sem viðmiðunartala í þessu sambandi.

Af þessu tilefni vil ég segja að ég tel eðlilegt að settar verði einhverjar viðmiðunarreglur um þetta atriði. En við samningu slíkra reglna mætti þó ekki einvörðungu horfa á íbúafjöldann heldur þyrfti einnig að taka mið af landfræðilegum aðstæðum og því hversu auðveldlega má senda aðstoð úr öðrum lögregluumdæmum.

Ég bendi þó á að ef miða ætti fjölda lögreglumanna við 500 íbúa á mann hvarvetna á landinu hefði það töluverðan kostnað í för með sér. Ef þeirri viðmiðunarreglu yrði beitt þyrfti t.d. að fjölga í 15 lögregluliðum en ef miðað væri við töluna 600 þyrfti að fjölga í 10 lögregluliðum, ef við lítum yfir landið allt.

Í áliti ríkislögreglustjórans, sem dagsett er 26. febrúar sl., kemur fram sú skoðun hans að á Stór-Reykjavíkursvæðinu séu nægjanlega margir lögreglumenn og til greina komi að kanna hvort forsendur séu fyrir samnýtingu eða jafnvel sameiningu lögregluliða á þessu svæði. Enn hefur þó ekkert verið ákveðið þeim efnum. Mál þessi eru vitaskuld til sífelldrar endurskoðunar í ráðuneytinu. Það er fylgst mjög grannt með þróun mála og þörfum hvers umdæmis fyrir sig og kalli breyttar aðstæður á breytingar í lögregluliði verður að sjálfsögðu brugðist við því.

Ég vil fá að nota þetta tækifæri til að þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina. Ég er sammála honum í því að mjög miklu máli skiptir að löggæslumál séu í góðu horfi hér á landi og hef reyndar lagt áherslu á þann málaflokk frá því að ég tók við þessu embætti.