Staðlar fyrir lögreglubifreiðir

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:50:03 (1207)

1999-11-10 13:50:03# 125. lþ. 21.3 fundur 127. mál: #A staðlar fyrir lögreglubifreiðir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Eru til staðlar um gæði og öryggi lögreglubifreiða?``

Þessari fyrirspurn hv. þm. má svara með vísan til reglna um ökutæki lögreglunnar sem ríkislögreglustjórinn gaf út þann 20. maí 1998. Í viðauka nr. I við þær reglur eru settar fram skilgreiningar á ökutækjum lögreglunnar og settir staðlar sem varða flokkun ökutækja og gæða- og öryggiskröfur. Má þar nefna styrkingar bifreiðanna, ABS-hemlakerfi, loftpúða fyrir ökumann og farþega o.fl. Fyrirmynd þessara staðla er sótt til lögregluyfirvalda á Norðurlöndum.

Frá setningu þessara reglna hefur við innkaup lögreglubifreiða verið tekið mið af þessum stöðlum. Á hinn bóginn er þó ljóst að stór hluti ökutækja lögreglunnar er eldri en fimm ára og uppfyllir ekki alltaf kröfur samkvæmt áðurnefndum stöðlum. Gerð var athugun á bílaflotanum árið 1997 og kom í ljós að nokkur hluti hans var orðinn of gamall til að viðunandi mætti teljast.

Í samráði við dómsmrn. og fjmrn. hefur lögreglan síðan unnið að því að hraða endurnýjun ökutækjaflotans og koma á nýrri skipan í þeim málum með það að markmiði að lögreglan hafi ávallt traustar og öruggar bifreiðir til afnota.