Staðlar fyrir lögreglubifreiðir

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:54:53 (1211)

1999-11-10 13:54:53# 125. lþ. 21.3 fundur 127. mál: #A staðlar fyrir lögreglubifreiðir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og þeim þingmönnum sem lögðu orð í belg. Auðvitað snýst ástand búnaðar lögreglubíla og annars búnaðar á lögreglustöðvum að miklu og kannski að öllu leyti um fjárveitingar til þess. En við verðum líka að skoða þetta í því samhengi sem hér hefur verið til umræðu, þ.e. samanber þær breytingar sem eru að verða á samfélaginu og að nokkru leyti það agaleysi sem almennt virðist ríkja í samfélaginu.

Ég vil fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Fyrirspurn minni hefur verið svarað. Það eru til staðlar sem settir voru um gæði og búnað lögreglubifreiða. En jafnframt kemur fram í svari hæstv. ráðherra að ekki hefur tekist að fylgja nógu hratt eftir þeim kröfum sem felast í stöðlunum, þ.e. í umferð eru enn þá illu heilli of margir úr sér gengnir lögreglubílar, má segja, og spurningin er hvaða hætta sé fólgin í því.

Fyrirspurninni hefur verið svarað og ég treysti því að hæstv. dómsmrh. fylgi þessu brýna máli fast eftir og ég veit, eins og fram kemur í svari hennar hér, að hún hefur hug á að gera það.