Tannvernd barna og unglinga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:08:27 (1216)

1999-11-10 14:08:27# 125. lþ. 21.4 fundur 130. mál: #A tannvernd barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir viðbótarupplýsingarnar. En ég vil segja þetta:

Í ljós kemur að það dregur úr tannskemmdum. Þetta er staðreynd. Það er líka staðreynd og hefur komið fram í skrifum yfirtryggingatannlæknis að tannskemmdirnar er einkum að finna í hluta barnahópsins. Í skrifum hans var ef ég man rétt talað um fjórðung. Síðan kemur líka fram að væntanlega eru í þeim hópi margir sem ekki sækja neinn tannlækni, hvorki einkatannlæknastofu né skólatannlækningar.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir talar um könnun þar sem niðurstaðan var að tíunda hvert barn hefði ekki farið til tannlæknis. Ég var enn þá varfærnari og talaði um 5%. Þá erum við að tala um 2.500 börn á skólaskyldualdri sem aldrei fá neina aðhlynningu. Hvert er þá verkefnið, ef við tökum þetta allt saman? Verkefnið er að finna þennan hóp og sinna honum. Hver gerir það best? Hvar verður það best gert? Það verður best gert í skólunum. Hvernig eigum við þá að eiga við samkeppnisráð? Það er mjög einfalt. Við segjum: Í skólunum er þessu hlutverki alfarið sinnt. Flúormeðhöndlun fer alfarið fram í skólunum. Þetta er ekki neitt samkeppnisspursmál. Við fáum til þess skólatannlækna, tannfræðinga eða tanntækna sem þekkja þessi mál og eru í tengslum við börnin, skólann og síðan í framhaldinu við heimilin. Ég held að þetta sé leiðin sem við eigum að fara. Ég fagna því sem fram kom í svari hæstv. heilbrrh. að verið sé að skoða þessi mál. Ég vænti þess og vona að svo sé gert á þessum forsendum.