Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:24:45 (1219)

1999-11-10 14:24:45# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að margir nytu matargjafa sökum fátæktar. Það er eflaust rétt í einhverjum tilfellum að svo sé. En ég hygg að margir njóti matargjafa sökum skorts á sjálfsvirðingu. Það er kannski það sem hefur gerst í auknum mæli að stórir hópar fólks eru að missa sjálfsvirðinguna og leita að matargjöfum meðan aðrir í svipaðri stöðu gefa peninga til Hjálparstofnunar kirkjunnar og annarra aðila. Þeir leita því til hjálparstofnana vegna þess að lærið er ódýrara þar en í Hagkaup. Þeir hafa misst sjálfsvirðinguna. Ég held að það sé því miður nokkuð algengt og hjá hjálparstofnunum er ekki spurt að neinu.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort þetta geti verið ástæðan en ekki eingöngu fátækt.