Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:28:03 (1221)

1999-11-10 14:28:03# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það frv. sem við erum að ræða er árviss atburður. Ég hef spurt hv. þm. áður hvers vegna hann er svona naumur í tölunum. Af hverju er hann núna með 112 þús. kr.? Síðast var hann með 80 þús. kr., ef ég man rétt, (GE: 88 þús.) 88 þús. og þar áður 80 þús. Af hverju er hann svona naumur? Af hverju hefur hann þetta t.d. ekki 300 þús. kr. eins og laun þingmanna? Af hverju eru það ekki lágmarkslaun? Eða 500 þús. kr. Mér þætti það miklu betra. Sérstaklega ef allar bætur í landinu mundu fylgja með líka. Eða milljón. Af hverju eru ekki lágmarkslaunin milljón, hv. þm.?

Það skyldi þó ekki vera að fólk sjái að meiri hluti landsmanna yrði atvinnulaus ef lágmarkslaunin eru milljón nema kannski opinberir starfsmenn. Svona stýring ofan frá hefur ekkert að segja. Arðsemi fyrirtækja á Íslandi vex ekki með því að hækka lágmarkslaunin. Fyrirtækin geta ekki borgað meira þó að sett verði lög um lágmarkslaun.

Herra forseti. Nú er það svo að laun hér á landi hafa hækkað undanfarið umfram verðlag sem aldrei fyrr. Það er nánast sama hvaða mælikvarða við notum, laun hafa hækkað sem aldrei fyrr og lægstu launin hafa hækkað langsamlega mest. Fyrir nokkrum árum voru lægstu launin undir 50 þús. kr. á mánuði. Nú eru umsamin lágmarkslaun komin yfir 70 þús. kr. á mánuði og sem betur fer eru sárafáir á þeim töxtum. Hvað skyldi valda því, hv. þm.? Minnkandi atvinnuleysi. Þegar 10 manns eða 20 manns bíða eftir stöðunni minni fer ég að sjálfsögðu ekki fram á launahækkun. En þegar enginn bíður eftir stöðunni minni og það vantar fólk get ég gjarnan farið fram á launahækkun og fæ hana. Alveg sérstaklega hefur þetta gagnast þeim sem eru með lægstu launin þannig að ég segi: Atvinnuleysi er böl þeirra sem eru með lægstu launin. Lægstu launin lækka mest þegar atvinnuleysi kemur upp.

[14:30]

Þeir sem hærri laun hafa geta farið í aðra stöðu ef það er atvinnuleysi. En þeir sem eru í lægstu stöðunum geta það yfirleitt ekki. Að minnka atvinnuleysið er þannig besta hjálpartækið til að hækka lægstu laun án þess að bylta því ofan frá með löggjöf.

Herra forseti. Það eru sárafáir með lægstu launin. Það eru unglingar sem eru að hefja störf, fólk sem er að byrja í atvinnulífinu eftir hlé, stundum vegna óreglu, fangelsisvistar eða einhvers slíks. Þeir sem hafa verið heimavinnandi og fara út á vinnumarkaðinn byrja með lág laun á meðan þeir eru að skóla sig í hærri laun. Ef þetta frv. yrði að lögum fengi þetta fólk hreinlega ekki vinnu, það er svo einfalt. Það borgar sig að ráða fólk í ákveðin störf af því að launin eru lág. Ef launin eru hækkuð þá borgar það sig ekki lengur. Þess vegna nefndi ég áðan milljón á mánuði sem lágmarkslaun. Þá mundi nánast enginn atvinnurekstur á landinu bera sig og allir yrðu atvinnulausir nema náttúrlega opinberir starfsmenn.

Með því að hækka lágmarkslaunin er fólk með lágmarkslaun verðlagt út af markaðnum. Það er miklu skynsamlegra að auka eftirspurnina eftir fólki og minnka atvinnuleysið, örva atvinnulífið eins og núv. ríkisstjórn og þrjár síðustu ríkisstjórnir Sjálfstfl. hafa verið að gera. Þær hafa örvað atvinnulífið þannig að eftirspurnin eftir vinnuafli vex og öll laun hækka, alveg sérstaklega lægstu launin. Deilan um leikskólana í Reykjavík undanfarið sýnir í hnotskurn hvernig eftirspurnin hækkar lægstu launin, þau eru a.m.k. komin upp fyrir það sem Reykjavíkurborg treystir sér til að borga. Þetta er markaður og hefur alltaf verið. Menn geta reynt að grípa inn í markaðinn með því að setja lágmarkslaun og þá gerist hið sama og á hverjum öðrum markaði að markaðurinn minnkar, þ.e. einhverjir verða atvinnulausir. Menn geta hreinlega verðlagt fólk út af markaði með því að hafa lágmarkslaunin of há.

Ég hygg að hluti skýringarinnar á því að í Evrópu hefur verið viðvarandi 10% atvinnuleysi í áratugi, með hörmulegum afleiðingum fyrir þá einstaklinga sem í því lenda, sé stýring ofan frá með reglum um lágmarkslaun. Það eru hörmuleg örlög að verða atvinnulaus til langframa, harmleikur fyrir einstaklinginn. Það er harmleikur fyrir fjölskyldur að vera atvinnulausar mann fram af manni eins og víða gerist í Evrópu. Það er ekki æskilegt og hluti ástæðunnar er stýring ofan frá með lágmarkstöxtum og alls konar skuldbindingum á atvinnulífið svo það getur ekki ráðið fólk í vinnu á þeim kjörum. Þetta leiðir til þess að milljónir manna í Evrópu ganga um atvinnulausar mann fram af manni og vonleysið er algert. Ég hef kynnst því. Ég hef talað við þetta fólk, þar sem vonleysið er algert, engin von fram undan. Þessu ná menn fram með því að hækka lágmarkslaun, með því að lengja uppsagnarfrest og setja endalaust meiri og meiri kvaðir á atvinnulífið.

Ég styð núverandi ríkisstjórn vegna þess að hún hefur hvatt atvinnulífið. Hún hefur losað um hömlur á atvinnulífinu og gert það að verkum að atvinnulífið blómstrar. Albesti árangurinn, það sem ég er hvað ánægðastur með, er að atvinnuleysið er horfið. Afleiðing þess er hækkandi laun fólks á markaði og alveg sérstaklega lægstu launa, herra forseti. Svona frv. er því ekkert annað en sýndarmennska og aðeins til þess að rugla þá þróun sem er í gangi. Ég spyr: Af hverju 112 þús, kr. en ekki eitthvað annað? Af hverju ekki eitthvað myndarlegra? Ósköp eru menn naumir í þessu. (GE: Af því það þarf bara það til að komast af.)

Já, það er mjög góð spurning: Hvað þarf til að komast af? Þarf maður t.d. Stöð 2? Er það nauðsynlegt til að komast af? Þarf maður bíl? Er það nauðsynlegt til að komast af? Þarf maður sólarlandaferð einu sinni á ári? Þarf maður snjósleða? Þarf maður jeppa? (Gripið fram í: Já.) Þarf maður laxveiðileyfi? (Gripið fram í: Nei.)

Það er nefnilega spurning hve mikið þarf til að komast af. Ég hef talað við fólk sem kemst af með furðulega lítið, fólk í raunverulegum vandræðum. Því fólki dettur hins vegar ekki í hug að leita til Hjálparstofnunar kirkjunnar. Það hefur mikla sjálfsvirðingu. Ég var síðast í gær að tala við unga stúlku sem er að reyna að bjarga sér. Henni dettur ekki í hug að leita neins staðar hjálpar. Hún stendur sína plikt og ein í baráttu sinni.

Þetta held ég að sé vandamálið. Við höfum búið til fjölskyldur sem misst hafa sjálfsvirðinguna, þar sem maður fram af manni er atvinnulaus. Jafnvel í núverandi stöðu meðan rífandi vinnu er alls staðar að fá er fólk samt atvinnulaust. Reyndar eru sumir sem komnir eru yfir 55 ára aldur raunverulega atvinnulausir, vegna fordóma atvinnulífsins gagnvart eldra fólki en þeir sem eru yngri og atvinnulausir eru það ekki vegna þess að þeir geti ekki fengið vinnu.

Margir hafa misst sjálfsvirðinguna og það er meinsemdin í núverandi kerfi hjálpar og trygginga. Sumt fólk missir hreinlega sjálfsvirðinguna og í staðinn fyrir að gefa Hjálparstofnun kirkjunnar til að styðja þá sem raunverulega eiga bágt þá fara þeir þangað og hirða eitt stykki hangikjötslæri.