Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:43:02 (1225)

1999-11-10 14:43:02# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið en vildi samt sem áður vekja athygli á því að umræða um lágmarkslaun er ekki ný af nálinni. Hún hefur að sjálfsögðu áður farið fram hér í þingsölum en hefur einnig átt sér stað víða um heim. Ég hlýt að taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. að lágmarkslaun eru sums staðar lögbundin, víðast hvar eru þau þó samningsbundin.

En sums staðar eru þau lögbundin og þá, virðulegi forseti og hv. þm., hefur verið reynt að lögbinda lágmarkslaunin nógu neðarlega. Hv. þm. nefndi hér áðan ríkisstjórn Blairs í Bretlandi en það vakti athygli að þegar sú ríkisstjórn ákvað að setja á lágmarkslaun með lögbindingu þá varð niðurstaðan sú að hafa launin mjög neðarlega. Nákvæmlega sama á sér stað í Bandaríkjunum. Þar eru lögbundin lágmarkslaun og þar fór fram kröftug umræða á sl. vetri vegna þess að þar voru uppi hugmyndir um að hækka lágmarkslaunin. Niðurstaðan varð að vísu sú að þau voru hækkuð nokkuð en langt frá því sem menn höfðu gert kröfur um.

Og hver er ástæðan? Ástæðan er ekki sú að einhverjir í þjóðfélaginu séu á móti því að fólk hafi góð kjör. Það er enginn á móti því að reyna að koma í veg fyrir að fólk þurfi að leita á náðir hjálparstofnunar eða félagsþjónustu hins opinbera, hvort sem er sveitarfélaga eða ríkisins. Spurningin er alls ekkert um það hvort sumir telji að fólk eigi að vera í biðröðum hjá hjálparstofnunum en aðrir hafi á móti því. Þetta snýst ekkert um það. Málið snýst um hvort þetta sé leiðin til þess að bæta lífskjörin í landinu. Hvort lögbinding lágmarkslauna, hvort sem það er 112 þúsund eða milljón eða eitthvað þar á milli, sé líkleg til að útrýma fátæktinni í landinu.

[14:45]

Ég er algerlega á móti þeirri leið sem hv. þm. leggur til. Ástæðan er mjög einföld. Það blasir við að ef lágmarkslaun væru lögþvinguð eins og hv. þm. leggur til þá mundi það hafa áhrif á þá sem nú hafa laun fyrir neðan 112 þús. kr. Annaðhvort reyna fyrirtækin að hækka launin og þar með launakostnað sinn og með því að hækka launin getur skapast vanda í rekstri þessara fyrirtækja. Hins vegar er allt eins líklegt og reyndar miklu líklegra að fyrirtækin einfaldlega gefist upp, hverfi frá þeirri starfsemi sem þau hafa getað stundað í krafti þess að launin hafa ekki verið hærri og snúi sér að einhverju öðru.

Þetta var t.d. mjög áberandi í umræðu sem fram fór fyrir örfáum missirum varðandi launastefnu í fiskvinnslu. Þar blasti við að ef launakostnaður í fiskvinnslu ykist mjög mikið þá væri þrautalending þeirra sem reka fiskvinnslu- og sjávarútvegsfyrirtækin að færa einfaldlega starfsemina út á sjó, draga úr landvinnslunni. Það var ekki vegna þess að mönnum væri svo illa við að hækka launin í fiskvinnslunni. Ástæðan var að ef launakostnaðurinn hækkaði mjög mikið án þess að hægt væri að velta honum út í verðlagið, það geta útflutningsgreinarnar ekki gert, þá yrði það einfaldlega til að fækka störfum í landinu. Þetta, virðulegi forseti, held ég að við verðum að skoða í réttu samhengi.

Fyrir örfáum árum ræddum við um hvernig hægt væri að útrýma atvinnuleysi sem þá var viðvarandi í landinu. Í þeirri umræðu var spurningin um sveigjanleika vinnumarkaðarins og möguleikana á því að bregðast við mjög áleitin. Það er athyglisvert að Bandaríkjamenn hafa reynt að útrýma atvinnuleysi með því að auka sveigjanleika á vinnumarkaðinum og tryggja að lögbundin lágmarkslaun verði ekki til þess að auka atvinnuleysið í landinu.

Virðulegi forseti. Ég held að réttast væri að menn reyndu að setja málin í það samhengi sem umræðan snýst í raun og veru um. Menn mega ekki reyna að stilla því þannig upp að togast sé á um hvort menn vilji að biðraðir séu hjá Hjálparstofnun kirkjunnar eða eitthvað þess háttar. Þetta snýst ekki um það heldur efnahagspólitík, um hvernig við fáum tryggt sem mestan kraft í atvinnu- og efnahagslífi landsins.