Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:47:38 (1226)

1999-11-10 14:47:38# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér var um ákveðinn misskilning að ræða hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Málið snýst um að setja aðilum vinnumarkaðarins þau skilyrði að semja um laun sem fólk á möguleika á að lifa af fyrir fulla vinnu, fyrir 8 stunda vinnu. Um það snýst þetta frv. eins og ég hef áður sagt. Ég er tilbúinn að draga frv. til baka ef aðilar vinnumarkaðarins eru tilbúnir að hækka lægstu laun þannig að unnt sé að lifa af þeim. Ég segi það og get staðið við það að fyrirtæki sem ekki geta greitt launþegum laun sem mögulegt er komast af á eiga ekki tilverurétt. Þeim fer fækkandi sem betur fer. Fjölmörg fyrirtæki líta ekki á þessa lægstu taxta heldur greiða mikið hærri laun.

Mér þykir miður að dregið hafi verið inn í umræðuna að unglingar, þeir koma úr fangelsum og slíkir séu þeir einu sem vinna á lægstu launum. Mér þótti það miður. Ég held að það eigi ekki við. Aðalatriðið er að fólk sem vinnur fulla vinnu geti komist af án þess að þurfa að leita í sjóði samfélagsins vegna lágra launa. Um það snýst frv.