Kosningar til Alþingis

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 15:06:59 (1230)

1999-11-10 15:06:59# 125. lþ. 22.3 fundur 123. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla í heimahúsi) frv., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis á þskj. 154. Flm. ásamt mér eru hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Jónsson og Drífa Hjartardóttir. 1. gr. frv. hljóðar svo:

,,2. málsl. 3. mgr. 63. gr. laganna orðast svo: Slík ósk skal vera skrifleg og studd læknisvottorði og skal hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 12 á hádegi á kjördag.``

Þetta frv. er í raun og veru mjög einfalt að allri gerð. Hugsunin er einfaldlega sú að rýmka til fyrir fólk sem vill neyta kosningarréttar síns en getur ekki gert það á kjördegi. Hér er gert ráð fyrir því að auðvelda fólki sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar að greiða atkvæði í heimahúsi.

Í 3. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis er fjallað um heimild kjörstjóra til þess að gera kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, kleift að greiða atkvæði í heimahúsi. Samkvæmt 2. málsl. málsgreinarinnar ber þessum kjósanda að bera fram slíka ósk við kjörstjóra skriflega og studda læknisvottorði eigi síðar en þegar ein vika er til kjördags. Það sjá auðvitað allir að þetta getur haft í för með sér margs konar óhagræði og bókstaflega komið í veg fyrir að fólk geti neytt kosningarréttar síns. Nú vitum við að kosningalögin eru rammi um það hvernig við ætlum að haga kosningum til Alþingis. Hugsunin með þessum lögum er fyrst og fremst sú að búa í haginn fyrir fólk til að það geti neytt kosningarréttar síns. Við lítum svo á, og það er grundvallaratriði lýðræðisins, að kosningarrétturinn sé mönnum helgur og það eigi að gera allt sem í valdi manna stendur til að auðvelda kjósendum að neyta kosningarréttar síns. Þess vegna höfum við komið upp slíku kerfi, utankjörstaðaatkvæðagreiðslu, og við opnum kjörstaði úti um allan heim hjá kjörstjórum, hjá sendiráðum, fulltrúum íslenska lýðveldisins á erlendri grundu, og allt í þeim tilgangi að tryggja að fólk sem er að heiman á kjördag geti neytt kosningarréttar síns. Þetta er sjálfsagður hlutur, þannig á þetta að vera og ég held að um þetta sé almenn og víðtæk sátt í þjóðfélaginu.

Sú þróun sem hefur orðið á síðustu árum hefur öll gengið í þá átt að reyna að auðvelda fólki að neyta kosningarréttar síns. Við vitum að fólk er meira á faraldsfæti en áður og þess vegna þarf að hafa viðbúnaðinn meiri en oft áður til að fólk geti neytt kosningarréttar síns. En svo virðist sem einn þáttur þessa máls hafi setið nokkuð eftir og sé býsna frumstæður og, hvað á ég að segja, forn og trénaður þegar við skoðum þetta mál, og það er að það fólk sem er í þeirri stöðu að geta ekki, eins og segir í lagagreinni, vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar greitt atkvæði á kjördegi, þarf að láta vita með viku fyrirvara.

Nú vitum við að þau tilvik geta auðveldlega komið upp að fólk á ekki þess kost að neyta kosningarréttar síns, fara á kjörstað með viku fyrirvara. Sjúkdómar geta komið upp skyndilega, kona þarf að fara að eiga barn og ýmislegt fleira getum við nefnt í þessum efnum. Ef þannig stendur á að viðkomandi hefur ekki gert viðvart með viku fyrirvara þá er samkvæmt orðanna hljóðan ekki gert ráð fyrir að þessi einstaklingur megi kjósa. Ég held að þetta sé öndvert við alla nútímalega og sjálfsagða hugsun í þessum efnum.

Á þetta mál reyndi við sveitarstjórnarkosningarnar á árinu 1998 vestur á Patreksfirði þegar þannig háttaði til að kjörstjóri, sýslumaður í þessu tilviki, var að auðvelda einstaklingi sem var lasinn að kjósa í heimahúsi og það gerðist eftir að þessi tilskildi vikufrestur var liðinn. Þetta var gert til þess að koma til móts við eðlilegt sjónarmið í lýðræðisríki um það að fá að kjósa. En þetta kallaði á kæruferli, eins og margir kannski muna. Það komu upp kærur í sveitarfélaginu sem gerðu það að verkum að þetta mál kom til úrskurðar í félmrn. sem úrskurðaði á þá leið að þetta væri ekki fyllilega í samræmi við lög um kosningar til Alþingis, með öðrum orðum væru lögin svo þröng að ekki var gert ráð fyrir því að maður veiktist viku fyrir kosningar, maður ætti að hafa það á hreinu að veikjast aldrei með minni fyrirvara en a.m.k. rúmlega viku. Sama er ef kona þarf að fara að eiga barn að mjög mikilvægt er að það gerist ekki í vikunni fyrir kosningar nema það liggi þá klárlega fyrir að búið sé að láta kjörstjórann örugglega vita með læknisvottorði og skriflegri yfirlýsingu. Og þannig háttaði einmitt til á Patreksfirði í þessu tilviki að einstaklingur þurfti á þeirri þjónustu að halda að kjósa eftir að þessi vikufrestur var liðinn. En niðurstaða félmrn. var sú að þetta væri ekki alveg fullkomlega í samræmi við orðanna hljóðan í kosningalögunum, en hins vegar vegna þess að ljóst væri, eins og þar segir í úrskurðinum, að tilgangur lagagreinarinar hafi vart verið sá að takmarka kosningarrétt einstakra manna, heldur fremur þeir hagsmunir kjörstjóra að vita með nokkrum fyrirvara um fjölda þeirra sem hugsanlega þyrftu að notfæra sér þessa þjónustu til að neyta kosningarréttar síns.

Og síðar segir enn fremur í úrskurði hæstv. félmrh.:

,,Með skírskotun til þeirra grundvallarréttinda sem kosningarréttur er verður því að telja að sá háttur sem hafður var á við atkvæðagreiðslu þessa hafi eins og á stóð verið réttlætanlegur.``

Hér hefur komið fram umburðarlyndi hæstv. ráðherra, Páls Péturssonar, í þessum efnum en það er vart að treysta á að svo umburðarlyndur ráðherra verði ævinlega á stóli félmrh. þegar fram í sækir og þess vegna er nauðsynlegt að breyta lögunum.

Ég hef heyrt það sjónarmið að það að rýmka svona mikið til gagnvart fólki sem er í þessari stöðu gæti skapað alls konar vandamál hjá kjörstjórnum í einstökum sveitarfélögum. Þessu hlýt ég að vísa á bug. Grundvallaratriðið er það að búa svo um hnútana að allir geti neytt kosningarréttar síns. Og ef það kallar á að auka þurfi viðbúnað frá því sem nú er þá verður bara einfaldlega að gera það. Flóknara er það mál ekki. Við verðum auðvitað að leggja í þann kostnað og auka þá mannaflann sem þarf til svo að þetta sé mögulegt.

Ég vil vekja athygli á að í frv. er gert ráð fyrir því að fólk í þeirri stöðu sem margoft hefur hér verið lýst skuli bera fram ósk um að kjósa skriflega og skuli sú ósk studd læknisvottorði og hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 12 á hádegi á kjördag. Hér er sem sagt um að ræða verulega rýmkun frá gildandi lögum og ég held að í langflestum tilvikum væri hér verið að koma til móts við langflest þau tilvik sem upp gætu komið og ég hef þegar lýst.

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Þetta er einfalt mál en það er hins vegar réttlætismál og varðar þá grundvallarhugsun sem við leggjum held ég flest til grundvallar þegar við erum að fjalla um kosningalögin.

[15:15]

Nú vill svo vel til eins og flestir vita að nefnd er að störfum við að fara yfir kosningalögin í heild sinni og semja tillögur þar að lútandi. Ég veit að þar verður tekist á um mörg stærri og veigameiri atriði, grundvallaratriði, um skipan kjördæma og þar fram eftir götunum. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að sú nefnd geti líka fjallað um álitamál af þessu tagi og þess vegna töldum við hv. flutningsmenn að mikilvægt væri að áður en nefndin væri komin á skrið og verulegt flug væri búið að kasta fram þessari hugmynd sem hérna kemur fram í frv.

En að lokinni umræðunni legg ég til, virðulegur forseti, að málinu verði vísað til viðeigandi nefndar og 2. umr.