Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 15:39:14 (1232)

1999-11-10 15:39:14# 125. lþ. 22.4 fundur 134. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Hjálmar Árnason:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir afskaplega vandaða umfjöllun um mjög viðkvæmt mál, mál sem hv. þm. hefur augljóslega lagt mikla vinnu í og dregið mjög hnitmiðað saman meginkjarnann í þessu viðkvæma máli.

Samkvæmt frv. hv. þm. nær það einungis til skattheimtu á þeim hópi þegna landsins sem kýs að standa utan trúfélaga, hafi ég skilið ræðu og frv. rétt. En umræðan um þetta hlýtur hins vegar að teygja sig langt út fyrir þann hóp og snerta þar af leiðandi hina ýmsu trúarhópa og stofnanir, svo sem kirkjuna. Ég tel afskaplega mikilvægt að þingið ræði þetta mál en það verður að segjast eins og er að mér hefur fundist það vera nokkurt feimnismál að ræða trúmál innan veggja hv. Alþingis en ég tel það löngu tímabært og ekki ráð nema í tíma sé tekið nú þegar við erum að nálgast aldamót.

Í því samhengi hljóta að koma til umræðu tengsl kirkjunnar, ríkiskirkjunnar eins og sumir vilja kalla hana, hina evangelísku kirkju sem aðeins er minnst á í frv., tengsl ríkisvaldsins og hinnar evangelísku kirkju.

Ég vil taka fram í upphafi að ég ber mikla virðingu fyrir kirkjunni og tel hana gegna mjög mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar, enda á hún sér bæði langa sögu og hefð í íslensku samfélagi. Hitt er annað að ég tel að kirkjan eins og flest annað í þjóðfélaginu standi á ákveðnum tímamótum og um margt held ég að með rökum megi halda fram að hin íslenska kirkja standi í svipuðum sporum og kaþólska kirkjan þegar Marteinn Lúther reis gegn henni.

Rök Marteins Lúthers á sínum tíma voru þau að kirkjan, hin kaþólska kirkja hefði breyst í stofnun og hefði fjarlægst sóknarbörnin, fjarlægst fólkið þannig að orðið og inntak kirkjunnar fór eiginlega skýjum ofar og almenningur náði ekki til þess. Þar með var trúarlífið og ástundun trúar fjarlægara fólkinu en ella og fjarlægari en upphaflega stóð til. Kaþólska kirkjan var orðin stofnun fremur en lifandi söfnuður fólksins. Það eru m.a. þau rök sem Marteinn Lúther notaði þegar hann reis upp gegn kaþólsku kirkjunni.

Það má þess vegna með sama hætti segja og spyrja hvort kirkjan, evangelíska kirkjan á Íslandi sé í svipuðum sporum gagnvart sóknarbörnum sínum. Óneitanlega höfum við af fréttum orðið vör við umræður og deilur innan kirkjunnar sem stofnunar. Það eru deilur embættismanna kirkjunnar við söfnuð. Við hljótum að spyrja hvar kirkjan sé stödd þegar söfnuður flýr jafnvel kirkju sína vegna þess að embættismaður hennar á í deilum við söfnuðinn og hrekur söfnuðinn með óbeinum hætti frá heimahögum til að sinna trúarþörf sinni. Þetta er sorglegt og hlýtur að vekja miklar spurningar og ég tel það skyldu okkar að velta þessum málum upp nú þegar hv. þm. hreyfir þessu viðkvæma máli. Við eigum að leita orsaka.

Í þeirri umræðu hlýtur að koma upp á borðið umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju. Það er eðlilegt að sú umræða komi upp núna þegar við erum að nálgast aldahvörf og kristin trú hefur verið hér jafnlengi og raun ber vitni. Hvernig er tíðarandinn, hvernig slær hjarta þjóðarinnar og á kirkjan að fylgja tíðarandanum? Ég ætla ekki að svara því en ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ég tel ýmis rök mæla með aðskilnaði ríkis og kirkju frá því formi sem hér hefur ríkt um aldaraðir. Fyrir því eru nokkur rök.

Ég nefni þar í fyrsta lagi það sem kalla má jafnræðisregluna. Ég tel að með núverandi fyrirkomulagi sé trúfélögum og trúarhópum hér í landi mismunað eins og fram kom m.a. í ágætri framsöguræðu hv. þm. Marðar Árnasonar. Við getum tekið einföld dæmi af stöðu fríkirkjunnar, þeirra fríkirkjusafnaða sem eru starfandi hér á landi, hvernig þeir þurfa sjálfir að fjármagna sig að öllu leyti meðan önnur evangelísk-lútersk kirkja nýtur verndar, skjóls og fjárhagslegs öryggis að miklu leyti frá ríkisvaldinu. Segja má og því hefur verið haldið fram að þetta jaðri við a.m.k. brot á jafnræðisreglum.

[15:45]

Í annan stað vil ég nefna lýðræðisleg rök. Á síðustu áratugum hafa flutt hingað nýbúar frá ýmsum öðrum þjóðlöndum með ólíkan menningargrunn að baki og ólík trúarbrögð. Við höfum boðið þá velkomna inn í íslenskt samfélag og ég tel að íslensk þjóð hafi tekið afskaplega vel á móti nýbúum og komið til móts við þá og hjálpað þeim að laga sig að íslensku samfélagi. Hins vegar ber að geta þess að margir nýbúanna eru annarrar trúar en Íslendingar almennt og eru ekki hluti af ríkiskirkju okkar eða hvað menn vilja kalla hana. Ég tel að það séu lýðræðisleg réttindi þeirra að fá að halda trúarbrögðum sínum sem þeir vissulega fá en við þurfum að sýna öllum trúarbrögðum sömu lýðræðislega virðingu samkvæmt lýðræðislegri hefð.

Ég get nefnt fleiri hópa, t.d. ásatrú, kaþólska trú og þau fjölmörgu trúfélög sem hafa sprottið upp á síðustu áratugum og eru starfandi. Með núverandi fyrirkomulagi má segja að þessum félögum og hópum sé sýnd minni sæmd, minni virðing en hinni hefðbundnu kirkju og ég tel að það jaðri við ólýðræðislegt viðhorf gagnvart þessum hópum.

Í þriðja lagi nefni ég afnám ríkisafskipta sem hefur verið tíðarandi á síðustu áratugum á flestum sviðum og þess vegna er ekkert órökrétt að menn skoði það a.m.k. hvað varðar samskipti ríkis og kirkju.

Í fjórða lagi nefni ég, herra forseti, þau rök sem eru kirkjunnar sjálfrar vegna. Það er sannfæring mín að ein meginástæða fyrir þeirri ógæfu sem kirkjan hefur átt við að glíma á undanförnum árum sé hið mildandi og slævandi skjól miðstýringar sem kirkjan hefur búið við, bæði innan stofnunar og ekki síður í samskiptum sínum við ríkisvaldið. Fyrir vikið vilja sumir meina að kirkjan hafi sofnað á verðinum, fjarlægst fólkið og beint orku sinni um of inn á við sem stofnun í stað þess að leggja megináherslu á upphaflegt hlutverk sitt að vera uppspretta lifandi trúarlífs fólks í landinu. Ég trúi því að með fullkomnum aðskilnaði ríkis og kirkju væri kirkjan knúin til að efla sig innan frá og þar með styrkjast og standa sterkari gagnvart hlutverki sínu og fólkinu í landinu, sóknarbörnum sínum.

Í þessu samhengi vísa sumir til þess að ríkisvaldið og kirkjan hafi gert með sér samkomulag og verkaskiptingu, að nokkru byggt á upptöku eigna kirkjunnar og afnotum af þeim. Er sá samningur gjarnan notaður sem röksemd gegn aðskilnaði. Ég ætla ekki að fjalla neitt um þann samning en ég spyr einfaldlega: Hvort eru slík rök af trúarlegum toga eða stofnanalegum?

Herra forseti. Ég ítreka virðingu mína fyrir kirkjunni. Ég er sjálfur í þjóðkirkjunni og stunda hana rétt eins og hver annar Íslendingur en ég tel hins vegar að umræða um breytta stöðu kirkjunnar sé afskaplega nauðsynleg og ég vona að frv. þetta fái farsæla afgreiðslu og umræðu í þingnefnd.