Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 15:54:17 (1234)

1999-11-10 15:54:17# 125. lþ. 22.4 fundur 134. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., PM
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Páll Magnússon:

Herra forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs eftir að hafa hlustað á hv. 10. þm. Reykn. Hjálmar Árnason sem fjallaði m.a. um framgöngu Marteins Lúthers á siðbótartímum í Þýskalandi. Meginefni ræðu hv. þm. var aðskilnaður ríkis og kirkju. Ég vil hins vegar í upphafi benda honum á að í greinargerð með því frv. sem hv. þm. Mörður Árnason hefur lagt fram er sérstaklega tekið fram að í þessu frv. eru ekki lagðar til breytingar á þessari skipan eins og stendur í greinargerðinni og er þar átt við tengsl íslenska ríkisins við evangelíska lútherska kirkju.

En hv. þm. Hjálmari Árnasyni til upplýsingar, þó ég ætli ekki að fara að ræða sérstaklega þau mál sem voru uppi í deilu Lúthers við páfagarð, þá sneru þær ekki að því að kirkjan væri stöðnuð stofnun heldur snerust deilurnar um guðfræði. Þær snerust um syndaaflausn sem veitt var og skoðanir Lúthers á réttlætingu af trú. Þær snerust einnig um kenningar um óskeikulleika páfa og allur var grundvöllurinn guðfræðileg túlkun og ekkert annað.

Hv. þm. Hjálmar Árnason talaði fyrir minni ríkisafskiptum af kirkjulegum málefnum. Því held ég að allir séu sammála enda hefur það verið þróunin undanfarin ár. Nýlega hafa völd kirkjuþings aukist verulega. Kirkjuþing hefur mun meira að segja um málefni kirkjunnar og hefur starfað að mig minnir undanfarin tvö kirkjuþing eftir breyttum lögum.

Einnig vék hv. þm. Hjálmar Árnason að einhvers konar erfiðleikum sem þjóðkirkjan stendur frammi fyrir. Ég verð að mótmæla því. Enda þótt íslenska þjóðkirkjan hafi gengið í gegnum erfið ár fyrir skömmu held ég að það sé léttvægt tímabil ef við skoðum sögu kristinnar kirkju. Ég held að íslensk þjóðkirkja sé í mikilli sókn og sú sókn muni ná hámarki á næsta ári þegar við fögnum 1000 ára afmæli kristnitöku.