Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 15:57:02 (1235)

1999-11-10 15:57:02# 125. lþ. 22.4 fundur 134. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það mætti nú ætla að framsóknarmenn í Reykjanesi séu að klofna í afstöðu sinni til þjóðkirkjunnar og eru það söguleg tíðindi. En ég fékk ábendingu um það sem ég ekki vissi af því að hér hefur siðbótamaðurinn dregist inn í umræðuna að það mun vera afmælisdagur siðbótamannsins Marteins Lúthers samkvæmt miða sem ég fékk frá einum ágætum hv. þm.

Ég vil aðeins segja það í stuttu andsvari að ég tel að frv. það sem hér er til umræðu, frv. hv. þm. Marðar Árnasonar, sé réttlætismál og ég lýsti yfir stuðningi við það. Hins vegar held ég að þó að það nái aðeins til takmarkaðs hluta af heildarmyndinni hlýtur að vera mjög nauðsynlegt þegar frv. á borð við þetta kemur til umræðu að rætt sé um samskipti ríkis og kirkju og stöðu einstakra trúfélaga í samfélagi okkar. Ég tek undir það með hv. þm. að gera það heimspekilega og öfgalaust sem ég tel reyndar að hafi verið gert.

Ég ætla hins vegar ekki að deila við guðfræðinginn, hv. þm. Pál Magnússon, um kjarna siðbótarinnar. Um það hafa verið skrifaðar lærðar ritgerðir sem mér leikmanninum eru auðvitað að nokkru leyti framandi en ég vil þó segja að það er skoðun mín og lærdómur minn í sagnfræði að siðbótin hafi einnig beinst gegn kaþólsku kirkjunni sem stofnun en að auki ýmsum öðrum þáttum, svo sem trúarlegum þáttum.

Ég ítreka það að umræða um þessa viðkvæmu og mikilvægu þætti er löngu tímabær og afskaplega mikilvæg á hv. Alþingi.