Frumvörp um fjarskiptamál

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 10:45:09 (1244)

1999-11-11 10:45:09# 125. lþ. 23.91 fundur 131#B frumvörp um fjarskiptamál# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[10:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég gagnrýni harðlega að þingmönnum skuli boðið upp á óvönduð vinnubrögð og óviðunandi vinnulag hér. Það er engin meining að bjóða okkur upp á þau svör sem komið hafa fram.

Ég verð alltaf jafnundrandi á slíku vinnulagi. Nú er kominn 11. nóvember, virðulegi forseti, og hingað hafa verið að tínast inn eitt og eitt stjfrv. Og það er að venju þannig að þau eru sett á dagskrá um leið og það er leyfilegt samkvæmt þingsköpum. Við eigum síðan bara að fara í umræðuna hvernig sem á stendur. Nú er svo komið að menn vísa á bug gagnrýni á að formaður samgn., sem leiðir vinnuna, er ekki hér. Það er ekkert gert með það. Hann þarf ekki að vera hér. Svo er sagt að 1. umr. skipti eiginlega engu máli af því að málið á að fara í nefnd og þar fari vinnan fram.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur hvernig stjórnarflokkarnir eru að ganga æ lengra í því að drepa niður lýðræðislega umfjöllun á Alþingi. Það er að verða slík valdastaða hér uppi að það liggur við að sagt sé við stjórnarandstöðuna: Hunskist þið til að vinna við þetta og þegið þið svo.

Þetta er alvarlegt, virðulegi forseti, og það er stórt upp í sig tekið af mér að taka svo til orða úr þessum ræðustól.

Við fáum dagskrá vikunnar hverju sinni. Og hvernig er hún? Fyrstu tvo dagana stendur skýrt hvaða frv. komi til afgreiðslu. Síðustu tvo dagana stendur: Stjórnarfrumvörp? Af því að í upphafi vikunnar er ekki vitað hvaða frv. munu koma fram, hvort þau ná því að koma á þriðjudegi til að verða rædd á fimmtudegi, hvort þau ná að koma fram á miðvikudegi til að vera rædd á föstudegi ef það er þingdagur. Og við bíðum spennt að vita hvaða frv. þetta eru. Síðan kemur dagskrá eins og í gær, um fjarskiptin, en helminginn af málinu vantar.

Virðulegi forseti. Við erum að fara að ræða hálft mál og ég óska eftir frestun á því máli.