Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 11:59:50 (1260)

1999-11-11 11:59:50# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[11:59]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Í rauninni tel ég að spurningu hv. þm. hafi þegar verið svarað. Það kom skýrt fram í máli mínu að Framsfl. telur það koma til greina. Ég lagði jafnframt á það þunga áherslu að tæknibreytingar eru afskaplega örar á þessu sviði. Ég held hins vegar að ég verði að valda hv. þm. örlitlum vonbrigðum með því að mér heyrist hann bæði nú í andsvari og eins í ræðu sinni freistast til að gera eitthvað úr ágreiningi á milli ríkisstjórnarflokka. Ég hygg að það sé ekki ágreiningur. Menn skoða þessi mál mjög yfirvegað. Það er engin einföld lausn til á þessum málum, ekki síst þar sem tækniframfarir eru jafnörar og á sviði samskipta.

Ég ítreka að það er stefna flokks míns að skoða þetta mál með mjög opnum huga. Við útilokum ekkert enda á ekkert að útiloka í heimi þar sem breytingar eru jafnörar og raun ber vitni.