Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:30:51 (1270)

1999-11-11 12:30:51# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að hæstv. samgrh. sagði í ræðustól áðan í svörum sínum eitthvað á þá leið að ekkert væri óeðlilegt að hann sem og aðrir samgönguráðherrar stæðu með því fyrirtæki sem þeir færu með hlutabréf fyrir. Það var eitthvað í þá veru, herra forseti.

Það er nákvæmlega þetta sem við höfum verið að benda á, þingmenn Samfylkingarinnar, og þetta sem við óttumst. Þarna eru hagsmunaárekstrar á milli og maður veltir því fyrir sér ef það er rétt sem við höfum áhyggjur af að verið sé að færa samkeppniseftirlitið með samkeppnismálunum frá Samkeppnisstofnun yfir í Póst- og fjarskiptastofnun sem verður síðan hugsanlega undir yfirstjórn samgrh. Getur hæstv. samgrh. verið trúverðugur málsvari virkrar samkeppni á meðan svona háttar málum? Ég efast stórlega um það, herra forseti, og ég verð að segja eins og er að mér þótti a.m.k. hæstv. samgrh. því miður staðfesta þennan ótta minn með því að segja og viðurkenna að það væri þannig að hann stæði með ákveðnu fyrirtæki umfram önnur. Það er ekki eðlilegt, herra forseti, því að hæstv. samgrh. sem er jafnframt ráðherra samgöngumála á að vera hlutlaus gagnvart þeim fyrirtækjum sem eru starfandi á fjarskiptamarkaði. Það er óþolandi að sá ráðherra sem falin er yfirstjórn þessara mála standi með einu fyrirtæki umfram önnur. Ég vildi einungis draga fram að þetta staðfestir ótta okkar og það sem við höfum verið að benda á en að öðru leyti vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Ég vildi varðandi bráðabirgðaákvæðið spyrja: Er ekki tæknilega mögulegt að láta ákvæðið taka gildi 1. janúar árið 2000? Af því að mér fannst hæstv. ráðherra vísa í búnað og aðra þætti hvað það varðar vildi ég aðeins fá frekari útlistun á því.