Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:35:14 (1272)

1999-11-11 12:35:14# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:35]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. er ráðherra fjarskiptamála og þar af leiðandi hefur hann með að gera öll fyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Í þessu tilviki kemst ákveðin eftirlitsstofnun samkeppnismála að niðurstöðu. Það sem mér þykir óeðlilegt í þessu máli er það að hæstv. samgrh. setur síðan á stofn nefnd og þá væntanlega sem handhafi þessa bréfs í Landssímanum til að meta hvort rétt sé að fara að áliti stofnunarinnar. Við getum snúið þessu við og spurt: Hefði Tal fengið á sig slíkt álit, hefði mönnum þá þótt eðlilegt að þeir hefðu sett á stofn nefnd sem hefði tekið sér nokkra mánuði til að meta hvort rétt væri að fara að áliti samkeppnisyfirvalda? Hagsmunaáreksturinn sem ég er að benda á er ekki síst fólginn í því, herra forseti, að ef verið er að færa meira samkeppniseftirlit með þessum málum yfir til Póst- og fjarskiptastofnunar sem er hugsanlega síðan undir yfirstjórn samgrh., þá er þessi hagsmunaárekstur augljós að mínu mati, herra forseti.