Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:50:20 (1275)

1999-11-11 12:50:20# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:50]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að veita andsvar við ræðu hv. þm. til að einfalda umræðuna um það sem á eftir kann að koma. Fyrst vil ég segja að Landssíminn á auðvitað netið sem um er rætt, þjóðin á hins vegar Landssímann, svo það fari nú ekkert á milli mála. En frv. sem við erum að flytja snýst einmitt um þá staðreynd að það er eitt aðalnet sem nær til allra heimila og fyrirtækja í landinu. Um það gengur allt regluverkið, að tryggja aðgang annarra símafyrirtækja að þessu neti þannig að samkeppni sé tryggð og uppbyggingin sé tryggð og við Íslendingar stöndum þannig að þessu að við offjárfestum ekki og við nýtum þann búnað og þær eignir sem við erum með í landinu. Þetta er grundvallaratriðið. Út á það gengur frv. allt saman, að setja upp reglur og nýta til þess reynslu annarra þjóða að búa til reglurnar og hafa þær þannig að við getum nýtt okkur möguleikana sem fjarskiptabyltingin er að skapa okkur skilyrði til að gera.

Ef við hins vegar föllum í þá freistni að brjótaa kerfið upp og gera það enn þá flóknara en það þarf að vera held ég að það sé ekki skynsamlegt. Þess vegna hef ég vakið athygli á þeirri leið sem ég tel að sé líkleg til að vera hin besta, að við notum ákvæðin í frv. um aðgang að kerfunum til að við þurfum ekki að skipta þessum fyrirtækjum upp heldur höfum einn aðila sem ber ábyrgð á rekstri kerfisins en allir aðrir fjarskiptaaðilar sem til þess eru bærir eigi aðganginn.