Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 13:50:25 (1283)

1999-11-11 13:50:25# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Eins og ég skil málflutning hv. málshefjanda þá er hann á þann veg að hann gagnrýnir að ekki skuli vera boðið í eins ríkum mæli og áður upp á afsláttarkjör af rafmagnskaupum sem Landsvirkjun hafði boðið upp á meðan umframframleiðsla var á raforku og skortur á kaupendum. Eðlilega hlýtur fyrirtækið að draga úr slíkum afsláttarkjörum þegar kaupendur koma fram. En þessi gagnrýni þýðir að hv. þm. er í raun að gagnrýna að ekki sé til nóg af raforku til að selja. Með öðrum orðum, þingmaðurinn er að gagnrýna að ekki skuli vera virkjað meira svo að Landsvirkjun geti áfram boðið upp á meira rafmagn á lágu verði.

Út af fyrir sig er allt í lagi að hafa þá skoðun að gagnrýna stjórnvöld og Landsvirkjun fyrir að vera ekki nógu dugleg að virkja. En ég vek athygli á því að helsti talsmaður vinstri grænna í þessum málaflokki, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, hefur kveðið upp úr með það að flokkurinn er á móti því að virkja og hann er á móti því að virkja næstu 10 árin, bara alveg og skiptir engu máli þó að skipulagsstjóri stimpli þá pappíra. Þingflokkurinn leggst gegn því að virkjað verði í öðru orðinu en gerir kröfu til þess í hinu orðinu að virkjað verði meira.

Mér þætti vænt um ef hv. þm. vildi útskýra fyrir okkur þingmönnum og kannski þjóðinni í leiðinni hvernig samrýma megi þessi ólíku sjónarmið sem er að finna í þingflokki vinstri grænna.