Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 13:56:29 (1286)

1999-11-11 13:56:29# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil minna á það í þessu sambandi að hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. hefur lagt fram mjög skynsamlegar tillögur um framtíðaruppbyggingu á dreifikerfi og orkuöflun í landinu sem ég vænti að hv. þm. þekki, þ.e. að taka dreifikerfið sér og hafa síðan samkeppni um orkuöflun inn á þetta dreifikerfi. Þetta tel ég til bóta.

Ég vil líka minna hv. þm. vinstri grænna á að hæstv. núv. iðnrh. hefur markað þá stefnu að nýta orku í heimabyggð. Það væri töluverður sómi að því ef vinstri grænir tækju undir þetta og væru sjálfum sér samkvæmir því að ég veit ekki betur en þingmenn vinstri grænna hafi verið með og á móti jafnvel smærri virkjunum eins og virkjun við Villinganes, sem var afgreidd síðasta vetur á hinu háa Alþingi, og ég veit ekki betur en þeir séu allir á móti virkjunaráformum á Austurlandi, þ.e. Fljótsdalsvirkjun.

Ég bendi á þetta vegna þess að sú stefna að nýta orkuna í heimabyggð hefur ekki verið uppi á borðinu áður. Ég tók þátt í því á sínum tíma að mótmæla virkjun Blöndu. Þar var í raun og veru í engu farið eftir ráðleggingum þeirra sem börðust gegn virkjuninni. Þvert á móti. Heilmikið tillit hefur verið tekið til ábendinga sem fram hafa komið við Fljótsdalsvirkjun. En stóra málið í þessu er að nú á að nýta rafmagnið úti á landi og það er tækifæri til að snúa byggðaþróuninni við. Ég hvet menn til að vera samkvæma sjálfum sér í umræðunni.