Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:01:03 (1288)

1999-11-11 14:01:03# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Bara af því að hv. þm. --- áður en ég svara síðustu spurningu hans --- fór með tölur áðan um annars vegar framleiðslukostnað Landsvirkjunar á raforku og hins vegar það verð sem Landsvirkjun er að fá fyrir þá raforku sem hún selur til stóriðju, þá vil ég segja að þær tölur eru rangar, þannig að það sé klárt.

Mér gafst ekki tækifæri til að svara áðan síðustu spurningu hv. þm. um stöðu iðnfyrirtækja annarra en stóriðju hvað varðar kaup á raforku. Það er ekki hægt að halda því fram með nokkru móti eins og hefur reyndar komið fram við umræðuna að ástandið sé slæmt um þessar mundir. Hins vegar er ég þess fullviss að með breyttu skipulagi raforkumála í landinu sem að er stefnt með því að innleiða samkeppni í orkugeirann, sem ég vonast til að hv. þingmenn standi að þegar þar að kemur, mun verða hægt að ná betri árangri en er í dag.

Eigendur Landsvirkjunar hafa mótað þá stefnu að lækka raforkuverð í upphafi næstu aldar, á fyrstu tíu árum næstu aldar, að raunvirði um 2--3% á ári eða um 20--30%. Þessi áform ganga eftir. En til þess að þessi áform geti gengið eftir þurfum við að virkja meira. Við þurfum að nýta meira af okkar náttúruauðlindum í því skyni og um leið og við náum því að virkja meira, lækka orkuverðið, virkja á öðrum stöðum og fleiri stöðum um landið, þá erum við að tryggja afhendingaröryggið og það er það sem skiptir gríðarlega miklu máli.

Til að halda því til haga í umræðunni og af því að hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á það, þá verða menn að gera greinarmun á því þegar þeir tala um ótryggt rafmagn og trygga orku. Staðan í dag er þessi: Það er verið að skerða ótrygga rafmagnið, beinlínis verið að skerða ótrygga rafmagnið til stóriðjunnar. Það er hins vegar verið að hækka verðið til almenningsveitnanna til þess að draga úr eftirspurninni eftir því.

Hv. þm. Gunnar Ólafsson hélt ágætis ræðu. Það er alveg rétt. Ef við ætlum að losa okkur við losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, þá eigum við að fara þá leið að virkja íslensku fallvötnin vegna þess að það er vistvæn framleiðsla á raforku. Og það er erum að gera. En mér hefur skilist að vinstri grænir væru á móti því t.d. að virkja, samanber Fljótsdalsvirkjun. Hún þarf að koma til ef við ætlum í framtíðinni að færa okkur úr því að nýta eldsneyti sem losar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið yfir í vistvæna orkugjafa. Menn mega ekki gleyma því að það er lykilatriði að framleiða íslenskt rafmagn úr íslenskum náttúruauðlindum sem eru hreinar (Forseti hringir.) til að taka upp í staðinn fyrir þá mengandi orkugjafa sem við búum við í dag. Því verður ekki hjá því komist að nýta þessar auðlindir. En ef ég skil þetta rétt, þá eru vinstri grænir á móti því.