Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:51:55 (1302)

1999-11-11 14:51:55# 125. lþ. 23.7 fundur 103. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði vekur upp umræðu um almenningssamgöngur almennt í landinu og þá stöðu sem þær eru í. Það hefur komið fram í umræðunni að mikil breyting hefur orðið í rekstri og þjónustu almenningssamgangna, og einnig í stórbættu vegakerfi sem við blessunarlega stöndum frammi fyrir og ég vona og geri ráð fyrir að batni enn meir. En samgöngukerfið hefur ekki tekið mið af þessum breytingum.

Við höfum búið við almenningssamgöngur um land allt, þ.e. hægt var að ferðast með áætlunarbifreiðum um landið þvert og endilangt. Þetta er að breytast og okkur er tjáð að staða almenningssamgangna um landið standi núna á afar veikum grunni, bæði að lagst hafi af leiðir sem áður voru öruggar og almenningur átti aðgang að og enn fremur að þær leiðir sem enn þá er ekið á standi höllum fæti bæði fjárhagslega og þjónustulega séð.

Á undanförnum árum eða allt frá árinu 1997 hefur á vegum samgrn., að mér skilst, verið í gangi athugun á því til hvaða aðgerða og stefnumörkunar ætti að grípa til að skapa sérleyfishöfum viðunandi rekstrarskilyrði á þessu sviði. Því miður hefur enn ekkert komið fram. Því er brýnt að fram komi stefnumörkun varðandi almenningssamgöngur í landinu og það þjónustustig sem þeim er ætlað að bjóða upp á, stefnumörkun sem síðan er þá hægt að fylgja eftir með aðgerðum. Þetta er afar brýnt og má ekki dragast.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. samgrh. um þá áætlun eða þá úttekt sem fram fer í samgrn. varðandi stöðu almenningssamgangna og stöðu sérleyfisferða, hvar sú úttekt er stödd og hvenær vænta megi niðurstöðu eða tillagna af hálfu ráðuneytisins í þeim málum. Því að staða þessara mál er mjög veik og afar brýnt að gripið verði til aðgerða og ekki síst að almenningssamgöngum sé sköpuð sýn til framtíðar.

Almenningssamgöngur eru að vísu örlítið styrktar hér á landi en eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið er það bara brot af því sem gert er erlendis, t.d. eru þær styrktar í nágrannalöndum okkar um 22--75% eftir aðstæðum. Þannig að stuðningur við almenningssamgöngur, stuðningur við samgöngur innan lands eftir þjóðvegunum eru ekkert einsdæmi hér, það er bara enn þá betur tekið á þessu annars staðar. Ég legg því áherslu á að sem allra fyrst komi stöðuúttekt á þessum málum, framtíðarsýn og aðgerðaáætlun.

Ég vil benda á varðandi skólahald að við leggjum áherslu á að nemendur geti sótt skóla sem lengst með akstri að heiman og með bættum samgöngum og bættu vegakerfi ætti það að vera mögulegt. En til þess að það geti í rauninni orðið virkt þá þarf að fylgja því eftir með skipulögðum ferðum, skipulögðum samgöngumöguleikum. Þarna er þörf á verulegu átaki.

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að slík mál séu tekin inn í þessa umræðu. Ég ber mikið lof á það frumkvæði sem hér er lagt til fyrir hönd Eyjafjarðar en leyfi mér jafnframt að draga þessi mál inn í stærra samhengi fyrir allt landið og að skýr stefnumörkun komi, ákvörðun á þjónustustiginu sem síðan verði fylgt eftir með markvissri aðgerðaáætlun.