Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 15:57:42 (1311)

1999-11-11 15:57:42# 125. lþ. 23.8 fundur 115. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Heldur fannst mér það máttleysisleg svör að vísa til þess að kaupmáttur hafi aukist og þess vegna hafi þeim fækkað sem fá barnabætur. Því er til að svara í fyrsta lagi að á engu hinna Norðurlandanna og í mjög fáum aðildarríkjum OECD eru barnabætur tekjutengdar, hvergi á Norðurlöndunum. Varðandi kaupmáttinn og að hann hafi aukist og tekjur fólks og þess vegna hafi þeim fækkað sem fá barnabætur, er ekki síður vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki látið skattfrelsismörk eða persónuafsláttinn fylgja vísitölu. Það er ekki síst ástæða þess.

Ég er full samúðar með hv. þm., af því að barnakortin eru nú upprunnin frá ungum framsóknarmönnum, að svona skuli farið með þessa ágætu hugmynd vegna þess að hún er alveg ágæt út af fyrir sig og ég vildi gjarnan skoða hana og styðja framsóknarmenn í því að þessi barnakort kæmust til skila í vasa barnafjölskyldna. En ég vil spyrja hv. þm. að því hvort hann sé sammála Halldóri Ásgrímssyni, formanni Framsfl., um að eðlilegt sé að barnakortin, þetta meginstefnumál ungra framsóknarmanna og helsta kosningaloforð framsóknarmanna, verði bara skiptimynt í kjarasamningum. ASÍ hefur þegar hafnað því að svo verði, ef ég skil framkvæmdastjóra ASÍ rétt, og hefur vísað til þess sem er vissulega rétt að verkalýðshreyfingin hefur ekki góða reynslu af samvinnu við stjórnarflokkana um breytingar á skattkerfinu. Þess vegna hrýs mörgum hugur við því ef þetta eiga að vera efndirnar að vísa þessu bara í kjarasamninga og það eigi að vera einhver skiptimynt við launafólk í komandi kjarasamningum. Þess vegna, af því ég ber fullt traust til hv. þm. um að hann geri það sem í hans valdi stendur til að koma barnakortunum á, spyr ég hann hvort við getum ekki verið sammála um að óeðlilegt sé að barnakortin, sem eru að mér skilst ættuð frá ungum framsóknarmönnum, verði skiptimynt í kjarasamningum.