Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:12:25 (1316)

1999-11-11 16:12:25# 125. lþ. 23.9 fundur 147. mál: #A happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., 148. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Þau frv. sem hér verða rædd sameiginlega, frv. til laga um brottfall laga nr. 73/1994, um söfnunarkassa, og frv. til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, fjalla um það í stuttu máli að banna spilavíti á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum SÁÁ vex spilafíkn mjög hröðum skrefum í landi okkar og er það einkum ungt fólk sem ánetjast spilafíkninni. Á undanförnum árum hafa um 100 manns fengið stuðning hjá SÁÁ vegna fíknar sinnar. Þess eru mörg dæmi að fólk spili frá sér allar eignir og oft breiðir sviðin jörð þessarar ógæfu sig til margra aðstandenda. Fyrir rúmum tveimur árum var hér á ferðinni bandarískur prófessor í geðhjúkrun, Sheila B. Blume að nafni, en hún er jafnframt stjórnandi meðferðarstofnunar fyrir áfengis-, eiturlyfja- og spilafíkla í New York. Þessi bandaríski prófessor benti á hvílíkur skaðvaldur þessi fíkn væri og sagði m.a. eftirfarandi í viðtali við Ríkisútvarpið:

,,Áfengissýki eyðileggur fjölskyldu, konu, mann og börn, en spilafíkn eyðileggur fyrir mörgum kynslóðum. Ekki er einungis auði nærfjölskyldunnar sóað heldur foreldra, afa og ömmu, barna og barnabarna, svo spilafíkn fer verr með fjölskyldur en áfengissýki.``

Þetta sagði þessi bandaríski prófessor sem hér var í heimsókn. Í viðtalinu kom fram að iðulega yrðu fíklar svo niðurbrotnir að þeir fyrirfæru sér. Það er vissulega mikið áhyggjuefni að ekki skuli reynt að stemma á að ósi í þessum efnum. En við ramman reip er að draga. Þeir sem hagnast á spilakössum og spilavítum hér á landi eru Háskóli Íslands og ýmsar þjóðþrifastofnanir og samtök á borð við Rauða kross Íslands, Landsbjörg og reyndar einnig SÁÁ, eins mótsagnarkennt og það hljómar. Ástæðan fyrir því að meiri hluti Alþingis vill ekki aðhafast í málinu er að mínum dómi sú að þessar stofnanir og samtök yrðu af mjög mikilvægum tekjustofnum, en samtals nemur beinn hagnaður þessara aðila vegna spilakassanna rúmum milljarði króna á ári. Ef kostnaður við spilavítisvélarnar er ekki dreginn frá, heldur litið á það sem úr kössunum kemur þá nálgast upphæðin tvo milljarða kr. Heildarveltan er svo enn þá meiri því talsvert fer í vasa þeirra sem spila á kassana. Það skýrir fíknina, vogun vinnur, vogun tapar. Einhver hagnast en flestir sitja eftir með sárt ennið. En þessar tölur gefa vísbendingu um hve miklar upphæðir er um að tefla.

[16:15]

Herra forseti. Ég vil geta þess að ég hef lagt fram fyrirspurn um ágóðann, tekjurnar af þessum söfnunarkössum, bæði fyrir Íslenska söfnunarkassa sf., sem stofnanir á borð við Rauða krossinn og Landsbjörg eiga aðild að, og svo fyrir Háskóla Íslands en svör hafa ekki borist. Á 123. löggjafarþingi var lögð fram fyrirspurn af hálfu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um söfnunarkassa og happdrættisvélar og þá komu fram tölur frá árinu 1994 fram á árið 1998. Samkvæmt þeim tölum er beinn hagnaður þessara aðila árið 1997 1.119 millj. kr.

Það má því með nokkrum sanni segja að tveir aðilar hafi ánetjast spilakössunum, þeir sem eru háðir þeim sem fíklar og hinir sem eru háðir þeim sem tekjustofni. Þau frumvörp sem við erum með til umfjöllunar hafa áður komið fram að uppistöðu til en eru nú endurflutt og eru það þingmenn úr öllum flokkum á þingi sem standa að þessum frumvörpum, þ.e. auk mín hv. Árni Gunnarsson, Gísli S. Einarsson, Pétur H. Blöndal og Sverrir Hermannsson.

Þegar þessar tillögur komu til kasta þingsins síðast lýstu margir miklum efasemdum og höfð voru uppi stór orð um að við værum að hafa peninga af þjóðþrifastofnunum. Við búum reyndar svo um í þessum frv. að við getum þess að mikilvægt sé að finna þessum stofnunum nýja tekjustofna. Við tökum ekki fram hvar þeir eiga að vera og engar staðhæfingar eru um að það skuli koma úr opinberum sjóðum en við nefnum þetta sem mikilvægt atriði.

Þegar þessi mál voru síðast til umfjöllunar voru þau tekin út úr nefnd, þau voru tekin út úr allshn. og samþykkt á þingi á þann hátt að þeim var vísað til ríkisstjórnarinnar. Okkur var sagt að nefndarálit væri í smíðum þar sem öll happdrættismálin væru til umfjöllunar. Við gerðum þetta í góðri trú. Síðan tók ég þetta upp á þingi og spurði hæstv. þáv. dómsmrh. Þorstein Pálsson hvað þessu liði og hvað ætti að gera og hann sagði þá mér og mörgum til mikillar undrunar að aldrei hefði staðið til að gera neitt annað en að vísa málinu til nefndar.

Þegar álit þessarar nefndar er skoðað eins og það liggur núna fyrir er nú ekki mikið kjöt á beini. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Þátttaka í leikjum svokallaðra happdrættisvéla er sú tegund happdrætta sem hvað mestra vinsælda nýtur í dag. Tvö fyrirtæki reka happdrættisvélar hér á landi, Happdrætti Háskóla Íslands er rekur Gullnámuna og Íslenskir söfnununarkassar sem eru með söfnunarkassa. Happdrættisvélarnar gefa eingöngu peningavinninga. Þar sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur einkarétt á peningahappdrættum og greiðir sérstakt gjald til ríkisins samkvæmt því verður að telja að löggjöfin um Happdrætti Háskóla Íslands og Íslenska söfnunarkassa stangist á hvað þetta varðar. Lítið sem ekkert opinbert eftirlit hefur verið með starfsemi happdrættisvéla. Bæði þarf að löggilda vélarnar og fylgjast með því að þær starfi í samræmi við lög, svo sem hvað snertir vinningshlutfall. Til þess að sinna eftirlitinu þarf sérfróða menn á þessu sviði. Reglugerð um söfnunarkassa hefur ekki verið sett svo sem lög gera ráð fyrir. Engar reglur eru um hvar heimilt er að setja upp vélar. Lögreglan hefur þó í einhverjum mæli fylgst með því hvort farið sé eftir 16 ára aldurstakmarki í söfnunarkassa. Brýnt er að í lögum verði skýrt kveðið á um reiknings- og skýrsluskil þeirra aðila er reka happdrættisvélar.``

Þetta stóð aldrei til að gera af okkar hálfu, þ.e. að efla bara eftirlitið. Að sjálfsögðu er það skárra en eftirlitslausir kassar. En tillagan gengur út á að banna þessa starfsemi, að banna þessar vélar.

Þegar umræðan fór fram voru nokkur skrif í blöðum og þeir sem blönduðust í umræðuna fengu upphringingar og bréf víðs vegar að. Ég verð að segja að þá fyrst gerði ég mér grein fyrir því hve djúptækur þessi vandi er og hversu alvarlegt mál er á ferðinni. Í sumum þessara bréfa eru höfð uppi stór orð þar sem menn tala um að það sé mikil ógæfa fyrir íslenskt samfélag að stofnanir á borð við Háskóla Íslands, Rauða krossinn, SÁÁ, Landsbjörgu og önnur slík samtök skuli gera sér ógæfu annarra að féþúfu. Í einu slíku bréfi, sem ég fékk sent í apríl 1999, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Spilasjúklingar eru margir á Íslandi og þeim fjölgar stöðugt eftir því sem þessum vítisvélum fjölgar og aðgengi að þeim. Margir fjölskylduharmleikir hafa orðið. Menn hafa gerst brotlegir við lög og dæmdir í fangelsi og framið sjálfsvíg en ég veit um þrjú sjálfsvíg fjölskyldufeðra vegna þess að spiluðu burt aleigunni í spilakössum háskólans. Þau eru örugglega fleiri. Samt er mér tjáð að bannað sé að reka spilavíti samkvæmt íslenskum lögum en að sérreglur gildi um þessar stofnanir. Í dag er það samt svo að hér á höfuðborgarsvæðinu eru spilavíti í hverri einustu sjoppu eða vídeóleigu og hverri einustu krá og veitingastað. Ég segi spilavíti vegna þess að þetta eru hreinræktuð spilavíti. Ég veit með vissu að vinnandi fólk tapar vikukaupinu sínu á klukkutíma í þessum spilakössum. Unglingar sækja mjög í þetta og spila margir burt öllum peningum sem þeir eignast. Spilakassarnir eru bóksataflega úti um allt og það er opið frá því snemma á morgnana og þangað til seint á kvöldin.

Sonur vinkonu minnar, 16 ára gamall verkamaður, spilaði burt öllu kaupinu sínu, 200 þúsund kr., í ferbrúar og mars í Gullnámu Háskóla Íslands. Spilavítið var beint á móti bankanum þangað sem hann sótti kaupið sitt. Það var vinnufélagi hans, spilasjúklingur til margra ára, sem kenndi honum þetta. Þessi drengur brotnaði saman og var rekinn úr vinnunni og er nú til læknismeðferðar. Fórnarlömb þessara vítisvéla á Íslandi skipta þúsundum.``

Síðar segir í þessu sama bréfi, með leyfi forseta:

,,Það er einmitt út á þessa sjúklinga sem happdrættin, Háskóli Íslands og Rauði krossinn gera. Enginn heilbrigður maður eyðir peningum sínum og aleigu og tíma í það að standa við þessar vítisvélar. Sumt heilbrigt fólk álpast kannski í þetta einu sinni til tvisvar á ári og eyðir í þetta fáeinum þúsundum og síðan ekki söguna meir. Á þessu fólki græða happdrættin ekki neitt. Það er á sjúklingana, þunglyndissjúklingana, spilafíklana, fólk sem á í erfiðleikum og reynir að flýja veruleikann sem gert er út með ömurlegustu afleiðingum sem hægt er að hugsa sér, eignamissi, sundrungu fjölskyldna, lögbrotum, þjófnaði og fjársvikum og svo sjálfsvígum. Þetta er það djöfullegasta athæfi sem hægt er að hugsa sér. Og þetta eru háskólinn og Rauði krossin sem standa fyrir þessu með blessun Alþingis og ríkisstjórnar. Og enginn segir neitt nema örfáir þingmenn sem enginn virðist hlusta á. Eitt er víst, fórnarlömbin, sjúklingarnir, spilafíklarnir munu aldrei láta í sér heyra. Þeir skammast sín fyrir athæfi sitt og reyna að fela það eins og þeir mögulega geta. Þetta vita happdrættin og þess vegna hafa forráðamenn þeirra engar áhyggjur af þessum málum. Þeir fá sitt kaup örugglega mjög ríflegt og sjálfsagt dást þeir að sjálfum sér fyrir það hvað þeir eru sniðugir að afla tekna sem skipta mörg hundruð milljónum á hverju ári og sem sóttar eru í vasa ógæfufólks og sjúklinga.``

Undir þetta skrifar maður á þennan hátt:

,,Aðstandandi þunglyndissjúklings sem spilaði frá sér aleiguna í spilakössum Háskóla Íslands og framdi síðan sjálfsvíg.``

Þetta eru mjög þung orð. En tilefnið er líka ærið. Ég held hins vegar að það sé ekki rétt sem þarna kemur fram að menn sem við þetta starfa hafi ekki af þessu neinar áhyggjur. Það kemur a.m.k. fram í umsögnum margra aðila sem bárust Alþingi á sínum tíma. Þó eru þar undarlegar æfingar á ferðinni. Í álitsgerð sem Alþingi barst frá Gullnámunni, sem Happdrætti Háskóla Íslands stendur að, er m.a. vitnað í greinargerð siðfræðings, heimspekings sem starfar á vegum Háskóla Íslands. Þegar hann dregur saman niðurstöður sínar segir hann m.a. að vandséð sé hvaða siðleg rök geti stutt þá skoðun að happdrætti séu almennt siðferðilega röng þrátt fyrir að þau geti valdið böli hjá minni hluta fólks sem vegna þroska- og/eða ístöðuleysis nær ekki því sem fræðimenn kalla meðalviljastyrk.

Síðan segir hér að þar sem engin rök liggi fyrir að svo stöddu um að vélarnar valdi meira böli en gleði geti ekki talist siðferðilega rangt að bjóða upp á þær sem nýjan kost á veðleikjamarkaðnum. Hann segir reyndar að þetta sé umdeilt og það yrði háskólanum til álitsauka að gangast sjálfur fyrir rannsókn á ólíkum veðleikjum á Íslandi og áhrifum þeirra á þátttakendurna. Síðan er fjallað um það að munur sé á siðferðis- og velsæmisbrotum og að rekstur Happdrættis Háskóla Íslands kunni að falla undir hið síðarnefnda vegna hinnar sérstöku og viðkvæmu stöðu háskóla í samfélaginu, stöðu sem einkum byggist á kennivaldi, vegna þeirra afleiðinga, segi ég, sem þetta hefur í för með sér. Mér er alveg sama hvort talað er um siðferðis- eða velsæmisbrot. Niðurstaða höfundar er sú að það er rökstudd skoðun höfundar að íslensk stjórnvöld hafa að nauðsynjalitlu knúið Háskóla Íslands til slíkra aðgerða.

Þetta er mergurinn málsins. Menn telja að stjórnvöld hafi knúið þessar góðu stofnanir til þess að afla fjár með þessum hætti. En ég segi: Tilgangurinn helgar ekki meðalið. Í þessu efni helgar tilgangurinn ekki meðalið. Þessu á að breyta. En við leggjum að sjálfsögðu áherslu á að þessum stofnunum verði fundinn viðunandi tekjustofn.

Áður en ég skil við þessa álitsgerð þá segir einmitt þetta:

,,Happdrætti háskólans hlýtur að óska eftir því að flutningsmenn skýri frá því með hvaða hætti nauðsynlegt fjármagn til tækja og bygginga verði fengið í stað skerts framlags Háskóla Íslands sem óhjákvæmilega leiðir af stöðvun Gullnámurekstursins.``

Við erum tilbúin að taka þátt í umræðu um hvernig eigi að afla fjármuna. Við skulum ræða það. Við flutningsmenn erum ekkert á einu máli um það og höfum ekki rætt það sérstaklega. En sönnunarbyrðin hvílir ekki á okkur. Hún hvílir ekki á okkur þótt við tökum undir það að það sé eðlilegt að þessum ágætu stofnunum eins og Háskóla Íslands, þeirri mikilvægu menningarstofnun í samfélagi okkar, verði fundnar viðunandi tekjur og það á einnig við um hina aðilana, SÁÁ og Rauða krossinn, björgunarsveitirnar og aðra sem hlut eiga að máli.

Hæstv. forseti. Áður en ég lýk máli mínu langar mig til að hlaupa í örstuttu máli yfir þessar umsagnir. Þar kom fram, eins og ráða má af málflutningi mínum, að SÁÁ leggst gegn samþykkt ofangreindra frv. nema sambærileg og jafnörugg fjáröflun verði tryggð á móti. Þá segi ég: Tilgangurinn helgar ekki meðalið. Það þarf að finna tekjustofna en fyrst á að leggja þetta af og gera það helst jafnhliða.

Frá Rauða krossinum, Landsbjörgu, Slysavarnafélaginu og SÁÁ segir í einni greinargerðinni:

,,Söfnunarkassarnir eru aðeins hluti af fjölbreyttu úrvali aðferða sem Alþingi hefur samþykkt og viðurkennt til að spila upp á vinning. Má þar nefna skafmiða og skyndihappdrætti, flokkahappdrætti, Lottó, getraunir ... Fullkomlega óeðlilegt er að taka aðeins eina starfsemi fyrir og banna hana.``

Það er ekkert óeðlilegt við það að banna þessar vítisvélar, ekkert.

[16:30]

Stjórn Sýslumannafélagsins gerir ekki athugasemd við þessi frv. og ég ætla ekki að fara nánar í þetta að öðru leyti en að vitna í tvær umsagnir sem taka mjög eindregið undir með okkur flm.

Í fyrsta lagi frá Geðlæknafélagi Íslands. Í álitsgerð sem Geðlæknafélagið sendi frá sér á sínum tíma segir: ,,Stjórn Geðlæknafélags Íslands er samþykk ofangreindum lagafrumvörpum og styður þau heils hugar. Félagið er sammála þeim röksemdum sem liggja að baki, samanber grg. með lagafrumvörpunum.``

Síðan segir í álitsgerð frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands: ,,ÍSÍ er eignaraðili að fyrirtækinu Íslensk getspá sem rekur Lottó og skylda starfsemi. Íslensk getspá er í samkeppni við þá aðila sem reka söfnunarkassa og happdrættisvélar enda þótt sú starfsemi sé af ólíkum toga. Með vísan til þeirrar hörðu samkeppni sem ríkir á spilamarkaðnum, verður að teljast vafasamt að ÍSÍ lýsi sinni skoðun sinni að söfnunarkassar og happdrættisvélar séu til skaða og óþurftar. Það skal þó gert, fyrst spurt er.`` Undir það skrifar fyrir hönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ellert B. Schram.

Ég tel að þarna sé tekið á málum af ábyrgð. Ég vona það svo sannarlega að Alþingi beri gæfu til þess að gera það einnig.

(Forseti (HBl): Ég vil minna á að eigi má, nema með leyfi forseta, lesa upp prentað mál.)