Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:40:17 (1319)

1999-11-11 16:40:17# 125. lþ. 23.9 fundur 147. mál: #A happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., 148. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. sem við fyrstu sýn láta ákaflega lítið yfir sér. Þetta eru ákaflega einföld frv., tvær efnisgreinar hvort um sig. En þegar við skoðum þau nánar kemur á daginn að hér er um að ræða mjög stór mál. Þau geta orðið mjög afdrifarík fyrir fjölda fólks. Frv. fela það bókstaflega í sér að rústa fjárhagsgrundvelli samtaka á borð við SÁÁ, Rauða krossinn, björgunarsveitirnar og Háskóla Íslands og stofnanir hans. Það er ekkert minna. Ég verð nú að segja, virðulegi forseti, að mér finnst þetta hálfgerð sýndarmennskutillaga, alveg eins og mér fannst þegar þessi tillaga var flutt á sínum tíma. Það kom fram í máli hv. 1. flm. og kemur auðvitað fram í athugasemdum við þennan frumvarpstexta, dekur og daður við þá hugmynd að eitthvað eigi nú að koma eitthvað í staðinn.

Nú skulum við aðeins velta fyrir okkur alvöru þessa máls og hversu mikil meining er á bak við þessi orð. Það er rangt sem 1. flm. sagði hér áðan að fram kæmi í frv. að eitthvað annað ætti að koma í staðinn. Það kemur ekki fram í þessu frv. Í athugasemdunum er almennt tal um að einhverjar leiðir eigi að finna í staðinn og þakka skyldi nú. Hér er um tekjustofna að ræða sem eru bókstaflega bráðnauðsynlegir fyrir starfsemi þessara hagsmunasamtaka og stofnana í þjóðfélagi okkar. Auðvitað er sjálfgefið að þeim, sem leggja til að taka tekjustofna af þeim samtökum sem ég nefndi hér áðan, ber auðvitað heilmikil skylda í þeim efnum, að leggja fram aðrar hugmyndir á móti. En alvaran er samt sem áður ekki meiri en svo að í 2. gr. beggja frv. er lagt til að þessi breyting sem frv. felur í sér taki gildi eftir einn og hálfan mánuð.

Nú er verið að mæla fyrir þessu, þetta mál á eftir að fara til efnislegrar meðhöndlunar í viðeigandi þingnefnd. Málið á síðan eftir að senda út til umsagnar fjölda aðila í þjóðfélaginu, a.m.k. skyldi maður ætla að hv. flm. telji að aðrir kunni að hafa eitthvað um þetta mál að segja, geti notað sinn lýðræðislega rétt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við hv. þingnefnd. Það er gert ráð að allt þetta eigi að gerast á einum og hálfum mánuði. Dettur einhverjum í hug að þá verði búið að finna tekjustofna upp á einn og hálfan milljarð fyrir Háskóla Íslands, SÁÁ, Rauða krossinn, Landsbjörg og Slysavarnafélagið, sem er nú að vísu búið að sameina? Auðvitað er það ekki þannig. Það kom fram í máli hv. 1. flm. að engin samstaða er meðal hv. flm. um hvað eigi að koma þarna í staðinn.

Ég tel þess virði að við ræðum þetta og einnig hvort í því felist tvískinnungsháttur, fyrir samtök á borð við þau sem hér hafa verið nefnd, byggi á einhvern hátt tilveru sína á tekjum frá svona starfsemi. Ég er ekki að gera lítið úr þeim vanda sem starfsemi spilavéla og söfnunarkassa hefur í för með sér og ætla síst af öllu að vefengja það sem hv. 1. flm. las upp hérna áðan. En eigum við nú ekki aðeins að velta fyrir okkur hvernig þessu víkur við að öðru leyti? Hvar eigum við að draga mörkin? Spilavélar og söfnunarkassar --- hvað með Lottó? Það er fyrirbrigði sem skotið hefur upp kollinum á fáum árum og laðar til sín þúsundir og kannski tugþúsundir fólks hverja einustu helgi. Það leggur peninga í að veðja á að geta orðið milljónamæringur ef tölurnar þeirra komi upp í Lottóinu. Víkingalottó fer fram í sjónvarpinu um miðja viku og laðar til sín fjölda fólks sem hættir fé sínu til að spila á spennuna sem það felur í sér að geta orðið hundraðmilljónamæringur með því að taka þátt.

[16:45]

Ef við lítum í eigin barm, hv. þingmenn sem förum með fjárveitingavaldið þá gætum við spurt: Hvað er það sem við erum að véla um þessa dagana? Fjárlagafrumvarpið. Er ekki einn af stóru tekjupóstunum í fjárlagafrumvarpinu sala á brennivíni og tóbaki? Hefði ekki verið hægt að hafa svipaðar sögur af hörmulegum afleiðingum áfengisneyslu og sígarettureykinga, viðurlegi forseti, sem að vísu er búið að gera útlægar úr þessu húsi? Hefði ekki mátt fjalla um sígarettu\-reykingar sem hafa haft í för með sér hrikalegar afleiðingar ekki síst fyrir unga fólkið sem í fávísi sinni gengst á hönd þessum hræðilegu ávanaefnum, sígarettum og brennivíni, með afleiðingum sem allir þekkja og við kostum til stórfé í okkar þjóðfélagi til að reyna að bregðast við?

Virðulegi forseti. Við þurfum því að velta þessu fyrir okkur í miklu víðara samhengi ef við eigum að treysta okkur til að fella þá stóru dóma um að stofnanir á borð við Háskóla Íslands eða samtök á borð við Rauða krossinn, Slysavarnafélagið og SÁÁ megi ekki hafa tekjur sínar af starfsemi af þessu tagi.

Ég held, virðulegi forseti, að út af fyrir sig sé ágætt að við hv. þingmenn veltum fyrir okkur siðferðilegum spurningum eins og þeim sem hér hefur verið gert. Ég vil í fyrsta lagi árétta að mér finnst það ekki frambærilegt hjá hv. flm. að leggja fram tillögu sem felur það í sér að svipta þessi góðu samtök tekjustofnum sínum með eins og hálfs mánaðar fyrirvara án þess að neitt sé komið handfast í staðinn. Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að við spyrjum okkur fleiri spurninga af þessu tagi, bæði varðandi Lottóið eða bara venjulegt happdrætti. Síðast en ekki síst lifir ríkissjóður sjálfur að nokkru leyti á tekjum af því að selja fólki áfengi, jafnhættulegum og göróttum drykkjum. Ríkið selur einnig sígarettur sem örugglega hefur í för með sér dauða svo og svo margra Íslendinga á hverju einasta ári. Við þurfum því vissulega að svara slíkum siðferðilegum spurningum í miklu víðara samhengi.

Virðulegi forseti. Ég get ekki á nokkurn hátt tekið undir þetta frv. Ég átti þess kost fyrir nokkru þegar sambærilegt mál var hér á döfinni að ræða það og gerði það eins og ég er núna að gera. Ég vildi bara árétta þetta sjónarmið mitt svo ekki kæmu fram eintóna skilaboð við 1. umr. málsins. Ef menn ætli sér að fella burtu tekjustofna hjá þessum samtökum upp á rúman 1,5 milljarða á ári, samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram í athugasemdunum, þá tel ég það vera ábyrgðarleysi að ætla sér að gera það með eins og hálfs mánaðar fyrirvara án þess að koma fram með handfastar tillögur um hvað eigi að koma í staðinn.